Erlent

Segir iPhone hafa gert sig samkynhneigðan

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögmaður mannsins segir að Apple verði að bera ábyrgð á forritum þeirra, þó að ljóst sé að skilaboðin sem maðurinn fékk bárust honum í gegnum utanaðkomandi forrit.
Lögmaður mannsins segir að Apple verði að bera ábyrgð á forritum þeirra, þó að ljóst sé að skilaboðin sem maðurinn fékk bárust honum í gegnum utanaðkomandi forrit. Vísir/Getty
Rússneskur maður hefur höfðað mál gegn fyrirtækinu Apple á þeim grundvelli að iPhone hafi gert hann samkynhneigðan. Hann krefst þess að fá milljón rúblur, sem er um 1,8 milljón króna (gróflega reiknað), vegna þess skaða sem hann hefur orðið fyrir.

Samkvæmt frétt BBC heldur maðurinn því fram að hann hafi fengið rafmyntina GayCoin í gegnum síma sinn þó hann hafi keypt Bitcoin. Rafmyntinni fylgdu skilaboðin: „Ekki dæma fyrr en þú hefur prófað“.

Maðurinn heldur því fram að hann hafi því ákveðið að prófa kynlíf með karlmanni vegna skilaboðanna. Nú eigi hann kærasta og geti ekki útskýrt það fyrir foreldrum sínum.

„Líf mitt hefur breyst til hins verra,“ skrifaði hann í kæruna og bætti við að hann yrði aldrei „venjulegur“ aftur. Hann heldur því fram að Apple hafi ýtt honum út í samkynhneigð og þannig valdið honum skaða.

Lögmaður mannsins segir að Apple verði að bera ábyrgð á forritum þeirra, þó að ljóst sé að skilaboðin sem maðurinn fékk bárust honum í gegnum utanaðkomandi forrit.

Árið 1993 afnámu rússneskir þingmenn lög sem bönnuðu samkynhneigð en fordómar eru þrátt fyrir það umfangsmiklir í Rússlandi. Árið 2013 voru lög samþykkt sem banna dreifingu „áróðurs um samkynhneigð“ sem fól í raun í sér bann við opinberri baráttu fyrir auknum réttindum LGBT fólks. Undanfarin ár hafa nokkrir aðgerðasinnar verið myrtir í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×