Innlent

Þegar byrjað að ferja þorra hópsins úr landi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þegar mest lét síðdegis má áætla að á annað þúsund farþega hafi setið föst úti í flugvélum. Mynd er úr safni.
Þegar mest lét síðdegis má áætla að á annað þúsund farþega hafi setið föst úti í flugvélum. Mynd er úr safni. Vísir/vilhelm
Veðurofsi gærdagsins hafði áhrif á um 2200 farþega Icelandair. Þorra hópsins var útveguð gisting í nótt og þegar er byrjað að ferja hann úr landi. Upplýsingafulltrúi Icelandair áætlar að langflestir komist leiðar sinnar í dag, en þó sé ekki útilokað að einhverjir farþegar þurfi að bíða til morguns.

Sjá einnig: Rignir duglega í hvassri suðaustanátt framan af degi



Icelandair og fleiri flugfélög aflýstu öllum flugferðum sínum til og frá Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær og í gærkvöldi vegna veðurs. Þegar mest lét síðdegis má áætla að á annað þúsund farþega hafi setið föst úti í flugvélum, þar sem ekki var hægt að nota landgöngubrýr af öryggisástæðum.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að flugfélagið hafi þurft að leysa úr málefnum um 2200 farþega vegna veðursins í gær, þar af voru um 1300 skiptifarþegar. Stærstum hluta hópsins var útveguð gisting í nótt, um 1700 til 1800 manns.

Ásdís áætlar að flugáætlun dagsins muni að mestu leyti standast, en nú þegar hafa 11 vélar flogið frá Keflavík þennan morguninn. Hún útilokar þó ekki að keðjuverkunin sem hlýst af niðurfellingu flugs gæti haft einhver áhrif í dag, sem muni að mestu koma fram í smávægilegum seinkunum.

Til þess að sporna við áhrifunum hafi Icelandair bætt við tveimur ferðum til Bandaríkjanna í dag. Flogin var aukaferð til Boston í morgun og verður bætt við aukavél til Seattle seinni partinn.

Ásdís segir að vélarnar muni gera Icelandair kleift að koma stærstu hluta farþega sinn á áfangastað í dag. Þó sé ekki útilokað að einhver hluti þeirra þurfi að bíða til morguns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×