Innlent

Rignir duglega í hvassri suðaustanátt framan af degi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Veðrið hefur ekki leikið við íbúa á suðvesturhorninu og Suðurlandi síðustu daga.
Veðrið hefur ekki leikið við íbúa á suðvesturhorninu og Suðurlandi síðustu daga. Vísir/vilhelm
Mikillar úrkomu er að vænta á suður- og suðvestur helmingi landsins í dag. Þannig mun rigna ansi duglega í hvassri suðaustanátt framan af degi en seinnipartinn lægir mikið og styttir upp, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Ofsaveður hefur geisað á Suður- og Suðvesturlandi síðan í gær og hafði til að mynda mikil áhrif á flugsamgöngur.

Í viðvörun á vef Veðurstofunnar segir að einkum megi búast við úrkomu við jöklana.

„Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum á þeim svæðum í dag. Ferðamenn eru hvattir til að sýna aðgát við óbrúaðar ár, þá sérstaklega í grennd við Þórsmörk. Á suðausturhelmingi landsins má búast við vatnavöxtum fram á sunnudagseftirmiðdag.“

Þá eru gular viðvaranir Veðurstofu Íslands á Suðurlandi og Faxaflóa í gildi fram eftir morgni en búast má við hviðum yfir 35 m/s á þeim svæðum.

Trampólín á akbraut 

Icelandair og fleiri flugfélög aflýstu öllum flugferðum sínum til og frá Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær og í gærkvöldi vegna veðurs. Þegar mest lét síðdegis má áætla að á annað þúsund farþega hafi setið föst úti í flugvélum, þar sem ekki var hægt að nota landgöngubrýr.

Samkvæmt flugáætlun á vef Isavia hafa flugvélar tekið af stað frá Keflavíkurflugvelli nú á áttunda tímanum í morgun eftir röskun gærdagsins. Engar komur eru hins vegar áætlaðar fyrr en á ellefta tímanum.

Þá sinnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjölda útkalla vegna veðurs í gærkvöldi. Flest útköllin sneru að þakplötum og byggingarefni sem fauk í hvassviðrinu en í einu tilviki hafði trampólín fokið inn á akbraut á Grensásvegi.

Áætlað er að veðrið gangi að mestu niður í kvöld og á sunnudag, sem verður fremur rólegur. Um kvöldið má þó búast við vaxandi austanátt og á mánudag fer að rigna suðaustan og austanlands í allhvassri austan- og norðaustanátt.

„Fremur milt eins og oft vill vera þegar lægðir koma úr suðvestri og dæla til okkar mildu lofti ættuðu langt sunnan úr höfum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Austan og norðaustan 10-18, en 18-23 við suðurströndina fram eftir morgni. Talsverð rigning SA- og A-lands en dálítil væta í öðrum landshlutum. Hiti 7 til 12 stig.

Á þriðjudag:

Norðaustan 8-15 og rigning, en að mestu þurrt SV- og V-lands. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast sunnan heiða.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðaustanátt og dálítil rigning N- og A-lands, annars úrkomulítið. Heldur kólnandi.

Á föstudag:

Norðaustanátt og dálítil væta, en þurrt og bjart veður á S- og V-landi. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×