Erlent

Útlit fyrir að Sameinuðu þjóðirnar geti ekki greitt laun

Samúel Karl Ólason skrifar
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AP/Seth Wenig
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir alþjóðastofnunina standa frammi fyrir verstu fjárhagsstöðu stofnunarinnar í áratug. Útlit sé fyrir að ekki verði hægt að greiða starfsmönnum laun um mánaðamótin.

Guterres segir ástæðu þessa vanda vera að 64 af 193 aðildarríkjum stofnunarinnar hafi ekki greitt árgjöld sín. Þar á meðal eru Bandaríkin, stærsti fjárveitandi Sameinuðu þjóðanna.

Alls hafa 129 ríki greitt rétt tæpa tvo milljarða dala til Sameinuðu þjóðanna og eftir stendur 1,4 milljarðar.



Bandaríkin greiða gjöld sín yfirleitt ekki fyrr en í október, vegna þess hvernig fjárhagsárið er sett upp þar, en Sameinuðu þjóðirnar segja ríkið skulda 674 milljónir fyrir þetta ár og 381 milljón fyrir það síðasta. Þar að auki skuldi Bandaríkin umtalsverðar fjárhæðir vegna annarra verkefna Sameinuðu þjóðanna eins og friðargæslu. Auk Bandaríkjanna eiga ríki eins og Brasilía, Íran, Ísrael, Mexíkó, Sádi-Arabía og Úrúgvæ eftir að greiða gjöld sín.

Gripið hefur verið til aðhaldsaðgerða hjá Sameinuðu þjóðunum að undanförnu. Þær eiga að hafa bert gagn en duga ekki til lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×