Fótbolti

Arnór situr í stjórn rafíþróttadeildar KR

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason er hér að búa sig undir landsliðsæfingu
Arnór Ingvi Traustason er hér að búa sig undir landsliðsæfingu Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er að undirbúa sig fyrir leik með liðinu á móti ríkjandi heimsmeisturum Frakklands. Þá stendur hann í harðri baráttu með liði sínu, Malmö, um sænska meistaratitilinn og að komast upp úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Það sem kannski fáir vita er að Arnór Ingvi er lunkinn rafíþróttamaður og situr hann í stjórn rafíþróttadeildar KR sem stofnuð var í haust.

„Ég hef spilað Counter Strike frá því að ég var unglingur og er bara nokkuð öflugur í þeim leik. Félagi minn, Þórir Viðarsson, bað mig svo um að hjálpa sér við að halda úti rafíþróttadeild KR og það var bara meira en sjálfsagt. Ég er nú kannski ekki sá virkasti í stjórninni en ég reyni að hjálpa til þegar ég get. Ég spila reglulega og það er gaman að geta hjálpað til við að koma þessu af stað hjá KR,“ segir Arnór Ingvi um tildrög þess að hann varð stjórnarmaður í rafíþróttadeild KR.

„Þetta er risastór íþrótt á heimsvísu og til að mynda í Svíþjóð er þetta mjög vinsælt. Það var haldið mót í Malmö um daginn sem trekkti mikið að og það var glæsileg umgjörð í kringum það mót. Það er mjög gaman að sjá að íslensk félög eru að taka við sér og skilgreina tölvuleiki sem rafíþrótt. Það eru mjög margir sem eru að spila þennan leik og fleiri á Íslandi og gott að félögin séu til í að hýsa og aðstoða við utanumhald á þessari íþrótt,“ segir hann enn fremur.

„Við erum að fara að mæta mjög sterku liði og við verðum að spila okkar besta leik til þess að ná í stig. Við höfum gert það áður hérna á Laugar­dalsvellinum og ef að við náum upp okkar skipulagi hef ég fulla trú á að við nælum í stig,“ segir Arnór um leikinn gegn Frökkum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.