Innlent

Halla Sigrún nýr formaður SUS

Sylvía Hall skrifar
Páll Magnús Pálsson og Halla Sigrún Mathiesen.
Páll Magnús Pálsson og Halla Sigrún Mathiesen. Aðsend

Halla Sigrún Mathiesen var í dag kjörin formaður Sambands ungra Sjálfstæðismaður á 45. sambandsþingi SUS sem haldið var á Akureyri um helgina. Halla Sigrún var ein í framboði til formanns og þá var Páll Magnús Pálsson kjörinn varaformaður sambandsins.

Halla Sigrún er 21 árs, uppalinn Hafnfirðingur og með BA gráðu í hagfræði, stjórnmálafræði og sögu frá UCL. Hún útskrifaðist með alþjóðlegt stúdentspróf frá menntaskóla í Róm vorið 2015 og hefur sinnt ýmsum félagsstörfum innan flokksins samhliða námi en hún er formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði og situr jafnframt í fulltrúaráði flokksins þar.

Páll Magnús er 23 ára gamall, lögfræðingur að mennt og leggur stund á meistaranám við Háskólann í Reykjavík. Hann var áður formaður málfundafélags Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík, og varaformaður Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ. Aukinheldur situr Páll Magnús í umhverfisnefnd Garðabæjar, en Páll er sagður vera „Garðbæingur og Eyjamaður“ í framboðstilkynningu þeirra.

Í fyrri fréttatilkynningu frá framboðinu kom fram að þeirra markmið væri að veita forystu flokksins og kjörnum fulltrúum aðhald. Ungir sjálfstæðismenn ættu að vera enn öflugri í að beita sér fyrir bættum lífskjörum, auknum tækifærum og frelsi einstaklingsins.

Bæði Halla Sigrún og Páll Magnús eru af miklum Sjálfstæðisættum. Faðir Höllu Sigrúnar er Árni Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegs- og fjármálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Faðir Páls Magnúsar er Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Faðir Páls Magnúsar fagnar kjöri þeirra á samfélagsmiðlum í kvöld og óskar þeim innilega til hamingju. Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.