Erlent

Myndband virðist sýna ökumann Teslu í fastasvefni á 90 kílómetra hraða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ökumaðurinn virðist í það minnsta ekki vera með hugann við aksturinn, ef marka má umrætt myndband.
Ökumaðurinn virðist í það minnsta ekki vera með hugann við aksturinn, ef marka má umrætt myndband. Skjáskot/Twitter
Myndband, sem virðist sýna ökumann og farþega Teslu-bifreiðar í fastasvefni á 90 kílómetra hraða, hefur vakið töluverða athygli á samfélagsmiðlum síðustu daga. Hægt er að aka Teslu-bifreiðum með sjálfstýringu en fyrirtækið segir í yfirlýsingu að ökumenn eigi ætíð að vera vel á verði við aksturinn, einnig þegar notast er við sjálfstýringarbúnaðinn.

Myndbandið var tekið upp á hraðbraut í grennd við borgina Newton í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum á sunnudag. Dakota Randall, maðurinn á bak við myndavélina, sagði í samtali við sjónvarpsstöðina NBC10 Boston að hann hefði verið í bíl á næstu akrein við umrædda Teslu. Þegar honum varð litið til hliðar sýndist honum sem bæði ökumaður og farþegi bílsins væru sofandi.

Randall kvaðst hafa flautað til að reyna að vekja ökumanninn en ekki haft árangur sem erfiði. Hann hafi verið samferða Teslunni í tæpa mínútu áður en hann ók fram úr honum og skildi ökumanninn eftir, sem þá virtist enn sofandi.

Myndbandið má sjá í Twitter-færslu NBC hér að neðan.

Randall tilkynnti atvikið ekki til lögreglu en lögregla í Massachusetts kvaðst þó hafa heyrt af málinu, að því er fram kemur í frétt NBC.

Þá er haft eftir talsmanni Teslu að öryggisbúnaður í bifreiðunum minni ökumenn á að vera vakandi og á verði við aksturinn. Búnaðurinn hamli jafnframt notkun á sjálfstýringu þegar ökumaður hunsi slíkar viðvaranir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×