Fótbolti

Albanir ætla ekki að klúðra íslenska þjóðsöngnum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson í Elbasan skrifar
Siggi Már reddar mörgu. Núna því að Albanir spili réttan þjóðsöng.
Siggi Már reddar mörgu. Núna því að Albanir spili réttan þjóðsöng. vísir/óskaró
Albanir lentu í leiðinlegu atviki í útileik sínum í Frakklandi í undankeppni EM 2020 um helgina þegar Frakkar spiluðu óvart þjóðsöng Andorra fyrir leikinn en ekki þjóðsöng Albana.

Albanir brjáluðust skiljanlega vegna þessara mistaka og neituðu að spila fyrr en þeir höfðu fengið sinn þjóðsöng. Leikurinn tafðist því og atvikið var mjög vandræðalegt fyrir Frakka.

Albanir eru gestgjafar á móti Íslendingum í kvöld og nú er það á þeirra herðum að spila réttan þjóðsöng fyrir leikinn.

Íslensku fjölmiðlamennirnir voru mættir snemma á völlinn í Elbasan og á undan öllum öðrum Íslendingum.

Umsjónarmenn leiksins vildu vera 110 prósent vissir um að spila réttan þjóðsöng. Þeir sáu Sigurð Már Davíðsson, myndatökumann Stöðvar tvö og Vísis, vera að mynda á vellinum og kölluðu hann því til sín.

Sigurður Már hélt fyrst að hann hefði gert eitthvað af sér en það var langt frá því. Albanir vildu bara fá Sigurð, sem eina Íslendinginn sem þeir sáu út á velli, til að votta það fyrir sig að þeir væru að spila íslenska þjóðsönginn.

Íslenski þjóðsöngurinn var síðan spilaður og Sigurður Már gat létt áhyggjum þeirra með því að staðfesta að um réttan þjóðsöng var að ræða. Það verða því engin mistök gerð með þjóðsöngvana í kvöld.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×