Fótbolti

Birkir Már kom Hirti til varnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir Már, oft nefndur "vindurinn“, í landsleik.
Birkir Már, oft nefndur "vindurinn“, í landsleik. vísir/vilhelm

Birkir Már Sævarsson er ekki í leikmannahópi íslenska liðsins sem lagði Moldóva en tapaði svo fyrir Albaníu ytra í kvöld. Hjörtur Hermannsson spilaði sinn fjórða keppnisleik með landsliðinu. Ólíkt þremur fyrstu tapaði íslenska liðið, fékk á sig fjögur mörk og hefur Hjörtur verið gagnrýndur töluvert fyrir varnarleik sinn.

Margir kalla eftir endurkomu Birkis Más í landsliðshópinn en Birkir Már hefur átt fast sæti í byrjunarliðinu á gullaldarárunum. Hann spilar með Val í Pepsi-deildinni í sumar þar sem gengið hefur verið undir væntingum. Kom mörgum á óvart þegar hann var ekki valinn í hópinn fyrir nýliðna tvo leiki.

Stefanía Sigurðardóttir, eiginkona Birkis Más, tjáir sig reglulega um boltann á Twitter og var engin undantekning á í kvöld. Þau Birkir Már horfðu greinilega á leikinn í hópi fólks. Að hennar sögn kom Birkir Már varnarmanninum unga til varnar.

„Ég veit um einn sem ekki talaði niðrandi um leik Hjartar í kvöld. Sá réttlætti og útskýrði ákvarðanir og staðsetningar, sem landsmenn virtust afar ósáttir við hjá bakverðinum, aftur og aftur fyrir viðmælendum sínum yfir leiknum og eftir hann,“ segir Stebba.

Hún bætir við að hún sé stolt af hugarfari Birkis Más.

Fróðlegt verður að sjá hvort Birkir Már verði í landsliðshópnum fyrir Frakkaleikinn á Laugardalsvelli þann 11. október.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.