Innlent

Þjarmaði að réttar­meina­fræðingnum við aðal­með­ferð í máli Árna Gils

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingur, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingur, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. vísir/vilhelm
Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn Árna Gils Hjaltasyni, sem sætir ákæru fyrir tilraun til manndráps fyrir utan Leifasjoppu í Breiðholti í mars 2017, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Tvö vitni komu fyrir dóminn. Réttarmeinafræðingurinn Sebastian Kunz auk yfirlæknis á Landspítalanum. Í næstu viku munu svo ákærði Árni Gils og brotaþoli koma fyrir dóm auk fleiri vitna.

Kunz lagði mat á áverka brotaþola en tvær matsgerðir réttarmeinafræðingsins eru á meðal þess sem mest er deilt um í málinu. Sú fyrri var ekki talin í samræmi við sakamálalög að mati Landsréttar þar sem réttarmeinafræðingnum hafði láðst að boða matsfund og fá þar með gögn og sjónarmið fram frá ákærða og verjanda hans, Oddgeir Einarssyni.

Í kjölfarið fór Oddgeir fram á það að dómskvaðning Kunz yrði afturkölluð og nýr matsmaður fenginn. Þeirri kröfu var hafnað á þeim forsendum að ekki hefði verið um matsgerð að ræða, vinnunni hefði ekki verið lokið og matsmaðurinn því ekki vanhæfur.

Því gerði Kunz annað mat og er það síðari matsgerðin sem liggur til grundvallar í málinu.

Hjalti Úrsus Árnason mætti í dómsal í morgun en sonur hans er ákærður í málinu.vísir/vilhelm

Pabbi mætti og lagði orð í belg

Í ágúst 2017 var Árni Gils dæmdur í fjögurra ára fangelsi í héraði fyrir að stinga annan mann í höfuðið með hníf. Hæstiréttur ómerkti þann dóm og sendi málið aftur á lægra dómstig þar sem ekki var talið sannað að Árni Gils hefði gerst sekur um það sem hann var dæmdur fyrir.  

Þá taldi Hæstiréttur að fjölskipa þyrfti héraðsdóm í málinu þar sem aðeins einn dómari kvað upp dóm þegar málið var fyrst tekið fyrir í héraði. Nú hefur dómurinn verið fjölskipaður og sitja í honum tveir héraðsdómarar auk sérfræðidómara.

Árni hefur ávallt neitað sök í málinu og hefur faðir hans, kraftakarlinn Hjalti Úrsus Árnason, ákaft reynt að sýna fram á að sonur hans sé saklaus. Tók Hjalti meðal annars upp 25 mínútna langa heimildarmynd í þeim tilgangi.

Árni var ekki mættur í dómsal í dag en pabbi hans var á staðnum og átti það til að skjóta inn orði svo héraðsdómarar þurftu að minna á að aðeins dómarar, sækjandi, verjandi og vitni mættu taka til máls við þinghaldið.

Atvikið átti sér stað fyrir framan Leifasjoppu í Breiðholti. Myndin tengist ekki málinu sem hér um ræðir.fréttablaðið/Eyþór

Hvað gerðist á bílastæðinu við Leifasjoppu?

Aðdragandi líkamsárásarinnar sem Árni er ákærður fyrir var að hann fór að hitta æskuvinkonu sína á bílastæðinu við Leifasjoppu. Var Árni þá á bíl vinkonu sinnar og með hundinn hennar. Vinkonan var stödd í partýi og fór brotaþoli með henni út að hitta Árna.

Ágreiningur ríkir svo um það hvað gerðist þegar fólkið hittist á bílastæði við sjoppuna. Það er óumdeilt að til átaka kom á milli Árna og mannsins en aðilum málsins og vitnum ber ekki saman um hvernig þau þróuðust. Þá breyttist framburður sumra frá því við skýrslutöku hjá lögreglu og svo fyrir dómi.

Í reifun Hæstaréttar á sínum tíma þegar dómur héraðsdóms var ógiltur kom fram að niðurstaðan í málinu yrði að ráðast af því hvort lagt yrði til grundvallar að Árni Gils hefði haldið á hnífnum og lagt með honum til mannsins eða hvort maðurinn hefði haldið á hnífnum og hann rekist í höfuð hans í átökunum.

Til að komast að niðurstöðu um þetta hefði héraðsdómur orðið að taka rökstudda afstöðu til trúverðugleika framburðar Árna Gils annars vegar og mannsins hins vegar með tilliti til gagna málsins.

Það hefði hins vegar ekki verið gert og yrði ekki úr því bætt fyrir Hæstarétti. Var dómur héraðsdóms því ógiltur og málið sent í hérað á ný.

Árni með verjanda sínum Oddgeiri Einarssyni í Hæstarétti þegar málið var tekið fyrir þar.fréttablaðið/Eyþór

Fór í gegnum húð, fitu og beinþykkt höfuðkúpunnar en ekki inn í heila

Réttarmeinafræðingurinn Kunz svaraði spurningum saksóknara, verjanda og dómara í tæpa tvo tíma í morgun. Hann svaraði á ensku og var dómtúlkur viðstaddur til að túlka spurningar og svör.

Í svörum Kunz við spurningum saksóknara kom fram að í báðum matsgerðum væri komist að sömu niðurstöðu. Þeirri að mjög ólíklegt væri, ef ekki ómögulegt, að valda áverkanum fyrir slysni í átökum manna á milli. Líklegra væri að áverkinn hefði komið til af ásetningi með stunguhreyfingu.

Sagði Kunz að mikið afl þyrfti til að veita áverka líkt og þann sem brotaþoli hlaut auk þess sem árásarmaðurinn þyrfti að halda mjög fast um hnífinn eða það áhald sem hann væri að nota. Um stunguáverka væri að ræða sem fór í gegnum húð, fitu og beinþykkt höfuðkúpunnar en ekki inn í heila.

Saksóknari spurði Kunz út í skurði á höndum Árna Gils og hvort um varnaráverka gæti verið að ræða. Kunz sagði að staðsetning áverkanna væri ekki týpísk fyrir varnaráverka. Til dæmis gæfi útlit þeirra ekki til kynna að hann hefði gripið um hnífinn.

Aðalmeðferð málsins fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í annað sinn.vísir/vilhelm

Taldi ekki nauðsynlegt að boða til matsfundar

Það má síðan segja að verjandi Árna Gils, Oddgeir, hafi þjarmað að réttarmeinafræðingnum. Hann spurði Kunz til dæmis hvort hann hefði ekki boðað til matsfundar, líkt og honum bar lögum samkvæmt, við gerð fyrri matsgerðar.

Svaraði Kunz því til að hann hefði ekki talið það nauðsynlegt þar sem hann hafði allar upplýsingar sem hann þurfti til að geta veitt sérfræðimat sitt. Fram kom að gögnin sem Kunz hafði voru læknaskýrslur, tvær myndir og þýddir framburðir ákærða, brotaþola og eins vitnis.

Verjandi spurði aðallega út í framburð vitnisins og hvernig vísað væri til þess sem vitnið sagði í matsgerð Kunz. Spurði hann hvers vegna ekki væri vísað til síðari framburðar vitnisins. Þess sem vitnið sagði fyrir dómi þar sem sá framburður væri mun ítarlegri.

Þar kæmi fram að vitnið hefði ekki séð hníf í hendi Árna Gils og því ekki séð hann sveifla hnífnum. Vitnið hafði áður gefið skýrslu um að hafa séð slíkt. Spurði verjandinn hvers vegna þetta hefði ekki verið leiðrétt í síðari matsgerðinni.

Fyrst svaraði Kunz því til að það væri ekkert að leiðrétta þar sem vitnið hefði sagt þetta sem hann hafði eftir henni; að það hefði séð Árna Gils sveifla hnífnum. Svo bað Kunz um að fá að umorða svar sitt og var það túlkað á þennan hátt af dómtúlki:

„Í réttarmeinafræðinni lítum við á áverka og mynstur, svo aðallega læknaskýrslur og aðferðafræði. Síðan metum við áverkana sjálfa og reynum að gera okkur grein fyrir því hvernig áverkar kunna að hafa hlotist. Síðan eru þessar niðurstöður skoðaðar og bornar saman við vitnisburði. Það er ekki óvanalegt að framburðir vitna stangist á svo hver sá hvern halda á hníf eða sá ekki er ekki aðalatriðið í mínu starfi.“

Feðgarnir Árni og Hjalti sem segir son sinn saklausan.

Hvað er hægt að útiloka og hvað er mögulegt?

Þá spurði Oddgeir hvort ekki væri hætta á því, í ljósi þess að fyrri matsgerð hefði ekki verið í samræmi við sakamálalög, að Kunz myndi forðast breytta niðurstöðu í síðari matsgerð. Því með breyttri niðurstöðu væri hann að gera meira úr þeim mistökum sínum að boða ekki til matsfundar. Kunz neitaði þessu afdráttarlaust.

Ýmsar spurningar til réttarmeinafræðingsins sneru svo að líkum og hvað væri hægt að útiloka og hvað ekki.

Kom fram að Kunz teldi ekki hægt að útiloka að öðru vopni en hníf hefði verið beitt til að veita áverkann. Þá væri heldur ekki hægt að útiloka það fullkomlega að áverkinn hefði komið til fyrir slysni. Einnig væri mögulegt að brotaþoli hefði hlotið áverkann áður en hann fór að hitta Árna Gils en ekki farið til læknis.

Einn dómaranna spurði svo hvort hægt væri að útiloka að sljór hlutur, til dæmis harður kantur, hefði valdið áverkanum. Svaraði Kunz því til að ekki væri hægt að útiloka það.

Bæði Kunz og yfirlæknirinn á Landspítalanum sögðu að áverkinn sem brotaþoli hlaut hefði ekki verið lífshættulegur. Áverkinn hefði þó hæglega getað orðið lífshættulegur hefði hnífurinn farið lengra inn í höfuðið og inn í heila.

Þá kom einnig fram í máli yfirlæknisins að hann hefði aldrei séð svona áverka áður. Hann væri óvenjulegur að því leyti að um takmarkað svæði innan höfuðkúpunnar væri að ræða og ekki sæist sprungukerfi í kúpunni út frá honum. Það gæti vel samrýmst því að beitt vopn hefði verið notað frekar en að um fall hefði verið að ræða.

Aðalmeðferð málsins verður framhaldið í næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×