Innlent

Heimsókn Pence kostaði lögregluna tvær milljónir á klukkustund

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mike Pence mætir í Höfða á miðvikudag í síðustu viku.
Mike Pence mætir í Höfða á miðvikudag í síðustu viku. Vísir/vilhelm
Heildarkostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna sjö klukkustunda heimsóknar Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna nam 14,1 milljón króna, eða tveimur milljónum á klukkustund. Þetta kemur fram í svari lögreglu við fyrirspurn fréttastofu. Rúv greindi fyrst frá málinu.

Heimsókn Pence til Reykjavíkur þann 4. september síðastliðinn fór vart fram hjá nokkrum íbúa höfuðborgarsvæðisins en mikill viðbúnaður var vegna komu hans.

Götulokanir settu svip sinn á borgina yfir daginn og þá sinntu fjölmargir lögreglumenn öryggisgæslu á viðkomustöðum varaforsetans, einkum við Höfða í Borgartúni þar sem Pence fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra.

Vinnuframlag lögregluþjóna á vakt og í rannsóknardeild var stærsti kostnaðarliður heimsóknarinnar og hljóðaði upp á rúmar 4,2 milljónir króna. Vinnuframlag lögreglumanna við fylgd og í aðgerðasveit nam rúmlega 3,6 milljónum í hvorum flokki. Frekari sundurliðun kostnaðar má sjá í töflunni hér að neðan.

Þá var kostnaður lögreglu vegna heimsóknar Angelu Merkel kanslara Þýskalands, forsætisráðherra allra Norðurlandanna, lögmanni Færeyja og formanni landsstjórnar Grænlands og landsstjóra Álandseyja öllu minni en við heimsókn Pence, eða um 5,5 milljónir króna.

Þar bar hæst vinnuframlag lögregluþjóna við fylgd, sem nam rétt tæpum þremur milljónum króna. Sundurliðaðan kostnað vegna heimsóknar Merkel og félaga má sjá í töflunni hér að neðan.

Leiðtogarnir voru hér á landi í tvo sólarhringa en öryggisgæsla þeirra var nokkuð frjálslegri en í tilfelli Pence. Merkel fékk sér til að mynda göngutúr í miðborginni en til hennar sást á röltinu í Bankastræti.

F
réttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×