Innlent

Byggingarverktakar kvíða ekki vetrinum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gylfi Gíslason, sem er framkvæmdastjóri Jáverks á Selfossi. Fyrirtækið er með um 130 starfsmenn í vinnu.
Gylfi Gíslason, sem er framkvæmdastjóri Jáverks á Selfossi. Fyrirtækið er með um 130 starfsmenn í vinnu. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks á Selfossi segir stöðuna á markaðnum góða og hann kvíðir ekki vetrinum enda næg verkefni í gangi og framunda.
 
Jáverk á Selfossi er stærsti byggingarverktakinn á Suðurlandi með um 130 starfsmenn í vinnu. Fyrirtækið hefur sinnt mörgum stórum verkefnum í gegnum árin og það er enginn verkefnaskortur í gangi. En hvað segir Gylfi almennt um stöðuna á byggingamarkaðnum?
 
„Hún er nú bara nokkuð góð. Það hefur auðvitað eitthvað hægt á í íbúðarbyggingum, þó það væri uppsöfnuð þörf en þá virðist mönnum ekki hafa tekist að uppfylla þá þörf, sem er fyrir hendi, þar að segja í verðum, þannig að það eru ákveðin svæði, sem hafa gengið illa í sölu. Almennt er þó bara ágætis ástand framundan á byggingamarkaðnum. Það er meiri stöðugleiki yfir þessu heldur en maður kynntist hér á árunum fyrir hrun“.
 
 

En hvernig leggst veturinn í Gylfa og hans starfsmenn hjá JÁVERKI?
 
„Bara gríðarlega vel, verkefnastaða okkar er frábær, við erum ágætlega settir næstu tvö árin en auðvitað getum við alltaf blómum á okkur bætt“.
 
Gylfi segir mörg stór verkefni í gangi hjá fyrirtækinu. „Já, hér á Suðurlandi erum við t.d. nýbyrjuð á miðbænum á Selfossi, sem er stórt og skemmtilegt verkefni, við verðum í Eden byggðinni í Hveragerði, við erum að byrja að byggja íbúðir í Grænumörkinni á Selfossi með aldurskvöð. Á höfuðborgarsvæðinu erum við líka með stór verkefni, 330 stúdentaíbúðir fyrir Háskólann í Reykjavík, íbúðir fyrir Hrafnistu, íbúðir fyrir Búseta, þannig að verkefnastaðan er góð“, segir Gylfi.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.