Fótbolti

Glódís og stöllur hennar styrktu stöðu sína á toppnum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Á toppnum í Svíþjóð.
Á toppnum í Svíþjóð. vísir/vilhelm
Íslenska landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengard í dag þegar liðið heimsótti Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Rosengard vann leikinn 0-2 með mörkum Önnu Anvegard og Hönnu Bennison. Rosengard með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir. 

Á sama tíma var Íslendingaslagur í fallbaráttunni þegar Ingibjörg Sigurðardóttir, Guðrún Arnarsdóttir og stöllur þeirra í Djurgarden fengu Andreu Þórisson og stöllur hennar í Bunkeflo í heimsókn. 

Ingibjörg var reyndar sú eina sem fékk að spreyta sig en hún lék allan leikinn í vörn Djurgarden í markalausu jafntefli.

Í enska boltanum hófu Rakel Hönnudóttir (Reading) og María Þórisdóttir (Chelsea) báðar leik á bekknum hjá sínum liðum.

Rakel kom inná á 79.mínútu þegar Reading beið lægri hlut fyrir Man City 0-2.

María kom inná hjá Chelsea á 86.mínútu og hjálpaði liði sínu að ná jöfnunarmarki á lokamínútunni þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×