Erlent

Opinberuðu ekki árásir Kína af ótta við afleiðingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. Forsætisráðuneytið neitaði að tjá sig um frétt Reuters.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. Forsætisráðuneytið neitaði að tjá sig um frétt Reuters. AP/Rod McGuirk
Starfsmenn leyniþjónustu Ástralíu komust fyrr á þessu ári að þeirri niðurstöðu að Kína beri ábyrgð á tölvuárásum sem beindust gegn þingi ríkisins og þremur stærstu stjórnmálaflokkum þess skömmu fyrir þingkosningar í maí. Eftir að komist var að þessari niðurstöðu ákvað ríkisstjórn Ástralíu að halda niðurstöðunum leyndum til að skemma ekki viðskiptasamband Ástralíu og Kína.

Þetta kemur fram í frétt Reuters sem byggir á viðtölum við fimm aðila sem vita af málinu.



Forsætisráðuneyti Ástralíu neitaði að svara spurningum um málið og Utanríkisráðuneyti Kína segir ríkið ekki hafa komist að árásunum og að internetið sé „fullt af kenningum sem erfitt sé að rekja“.

Kína er langstærsti viðskiptaaðili Ástralíu og kaupir um þriðjung af öllum útflutningi ríkisins. Þá ferðast rúmlega milljón Kínverja til Ástralíu á ári hverju og þangað fara fjölmargir Kínverjar til að stunda nám.

Umræddar árásir voru framkvæmdar í febrúar og sögðu Ástralar fljótt að líklegast hafi annað ríki verið þar að verki. Rannsókn leiddi fljótt í ljós að Kínverjar hefðu framkvæmt árásina og var sérstakur kóði sem notaður var í árásinni tengdur við aðrar árásir Kínverja.

Ríkisstjórn Ástralíu óttaðist þó að spenna á milli Ástralíu og Kína gæti komið verulega niður á efnahagi ríkisins. Á undanförnum árum hafa Ástralar reynt að draga úr umfangsmiklum áhrifum Kínverja í Ástralíu með tilheyrandi spennu á milli ríkjanna. Reuters segir innflutning Kínverja frá Ástralíu hafa dregist saman í kjölfar þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×