Haraldur ólst upp í Reykjavík en var ættaður úr Dölunum. Lærði hann sín fyrstu gítargrip ungur að aldri.
„Árið 1986 reyndist nokkuð afdrifaríkt fyrir Halla, sem þá var 19 ára. Þá lenti hann í slysi sem kostaði mikla viðveru heima. Halli hafði í nokkur ár verið að semja texta og ljóð og það vantaði bara eitt púsl í myndina en það var að hann gæti spilað á gítar. Hann notaði tækifærið og lærði á gítar hjá mömmu sinni í veikindum sínum,“ sagði í umfjöllun á RÚV árið 2014 þegar hann tók þátt í Söngvakeppninni með laginu Vinátta.
Gítarinn var hans besti vinur. Fyrsta plata hans kom út árið 1993 en alls gaf Halli út átta sólóplötur auk þess að eiga lög á plötum annarra listamanna.