Lífið

Alíslensk ferðamannaslátrun

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Það er eins gott að vera flugsyndur og snar í snúningum þegar maður verður fyrir því óláni að morðóðir hvalfangarar koma manni til bjargar á hafi úti.
Það er eins gott að vera flugsyndur og snar í snúningum þegar maður verður fyrir því óláni að morðóðir hvalfangarar koma manni til bjargar á hafi úti.

Sérstök sýning á íslenska „splatt­ernum“ Reykjavík Whale Watching Massacre, sem leikstjórinn Júlíus Kemp sendi frá sér 2009, er á meðal fjölda sérviðburða á RIFF.

Reykjavik Whale Watching Massacre greinir frá ósamstæðum hópi ferðamanna frá ýmsum heimshornum sem ætla að lyfta anda sínum með því að skoða hvali á miðunum.

Ekki vill þó betur til en svo að skipstjóri skoðunarskipsins drepst í slysi og eftir standa ráðvilltir og vélarvana landkrabbarnir. Þeim til bjargar kemur kengbrengluð fjölskylda hvalveiðifólks á veiðiskipi sínu sem svo illa vill til að hefur sér það helst til dægradvalar í fásinninu að slátra náttúruunnendum og „greenpiss“-pakki.

Hyski þetta minnir um margt á úrkynjaðan skrílinn sem slátraði og lagði sér til munns ólánsama unglinga í tímamótahrollvekjunni Texas Chainsaw Massacre sem Tobe Hooper gerði 1974.

Hvalveiðiblóðbaðið er síðan beintengt því sem átti sér stað í Texas þar sem Gunnar Hansen leikur skipstjóra hvalaskoðunarskipsins en hann gerði garðinn frægan sem Leðurfésið í Texas Chain Massacre.

Helgi Björnsson, Guðrún Gísladóttir og Stefán Jónsson leika hvalveiðifjölskylduna ógeðslegu og gefa ekkert eftir í almennum subbuskap og manndrápum.

RWWM er fyrirtaks upphitun fyrir RIFF og hryllingsmyndirnar sem þar verða sýndar en myndin er sýnd á föstudaginn á Center Hotel Plaza klukkan 20.45. Húsið er hins vegar opnað klukkan 20 og hjartastyrkjandi drykkir verða á tilboði fyrir þá sem telja sig þurfa að stappa í sig stálinu fyrir sýninguna. þþAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.