Innlent

Gerir ráð fyrir að uppbygging vegar í Árneshreppi ljúki ekki í haust

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Oddviti Árneshrepps gerir ekki ráð fyrir að vegaframkvæmdum í Ingólfs- og Ófeigsfirði ljúki í haust. Hún segir að deilurnar um veglagningu og fyrirhugaða Hvalárvirkjun risti djúpt í samfélaginu. Þingmenn Framsóknarflokksins skoðuðu aðstæður á dögunum.

Starfsmenn Vesturverks hafa síðustu vikur unnið að því að byggja upp veginn um Ingólfs- og Ófeigsfjörð vegna fyrir hugaðrar Hvalárvirkjunar í Árneshreppi. Vegkaflanum yfir Seljanes var þó sleppt vegna andstöðu hluta landeigenda við framkvæmdirnar og þeirri stöðu hvort vegurinn um jörðina teljist þjóðvegur og sé því á forræði Vegagerðarinnar.

Á dögunum veitti Árneshreppur framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Ingólfsfirði vegna uppbyggingar vegarins um Ófeigsfjörð.

Samkvæmt upplýsingum er verkið ekki háð mati á umhverfisáhrifum en ákvörðun sveitarfélagsins má kæra til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála til 16. september.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.Stöð 2/Egill

Deilurnar í Árneshreppi rista djúpt

„Mér líður allavega þannig að það sé verið að óþörfu að tefja framfarir og þetta rekur flein í samfélagið, það verður að segjast,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.

Vegurinn um firðina tvo er seinfarinn og mjög seinfarinn eins og aðstæður voru, úr hellis rigning, þegar fréttastofa var þar á ferðinni.

„Ekkert af þessu er óafturkræft, það er bara svoleiðis. Þetta er núna eingöngu um að ræða að leggja veg upp á heiðina og það verður sjálfsagt ekki gert fyrr en með vorinu,“ segir Eva.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.Vísir/Stöð 2

Félags- og barnamálaráðherra og þingmanni Framsóknarflokksins lýst vel á framkvæmdirnar

„Við sjáum það þegar að við horfum á þessar framkvæmdir að þetta eru ekki mikil náttúruspjöll heldur eru þetta bara vegabætur. Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur. Þetta er bara jákvæð þróun fyrir samfélagið og kemur alltaf til bóta en ég held að deilurnar séu reistar á tilefninu en ekki framkvæmdinni,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmu.

„Ég tek undir með Höllu að þetta eru auðvitað bara minniháttar viðhald sem hér er í gangi og framkvæmdirnar eru bara jákvæðar fyrir svæðið og það er nú svolítið sérstakt hjá þingmanni kjördæmisins að það er af sem áður var að þegar vinir Árneshrepps skömmuðu þingmenn fyrir það að það væri ekki ráðist í  samgönguframkvæmdir. Nú eru þeir skammaðir fyrir að það sé ráðist í  samgönguframkvæmdir, þannig að ég held að þetta séu bara jákvæðar framkvæmdir og við eigum að reyna standa við þetta eins og við getum og eins og við höfum reynt að gera gagnvart öðrum  framkvæmdum hérna á svæðinu,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra.

Vegurinn um Ingólfsfjörð var mjög seinfarinn þegar fréttastofan var þar á dögunum.Vísir/Stöð 2

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.