Fótbolti

Kolbeinn: Skemmtileg spurning en ég er klár ef þeir vilja nota mig

Anton Ingi Leifsson skrifar
VÍSIR/SKJÁSKOT
Sóknarmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson segist vera í sínu besta formi í þrjú ár en hann hefur leikið mikið að undanförnu með sænska liðinu AIK.

Undirbúningur íslenska karlalandsliðsins fyrir leikina gegn Moldóvu og Albaníu í undankeppni EM 2020 hófst formlega í morgun.

Eftir þriggja ára þrautagöngu er framherjinn að ná sínum fyrra styrk en hann hefur leikið með vel sænsku meisturunum í AIK það sem af er leiktíðinni.

„Ég finn það að ég er kominn í gott form og ég hef verið að spila mikið af leikjum að undanförnu,“ sagði Kolbeinn í samtali við Hörð Magnússon.

„Formið er að vera komið á þann stað sem ég vil vera á og það er frábært fyrir mig. Vonandi næ ég að halda því áfram.“

Hörður spurði Kolbein þá næst út í hvort að það væri eitthvað því til fyrirstöðu að byrja með Kolbein í fremstu víglínu í leikjunum sem framundan eru.

„Þetta var skemmtileg spurning,“ sagði Kolbeinn og brosti áður en hann hélt áfram: „Ég er klár ef þeir vilja nota mig og ég er í góðu standi.“

Á síðustu leiktíð fékk Kolbeinn tækifæri í íslenska hópnum þrátt fyrir að vera ekkert að spila. Það hjálpaði honum að komast frá Nantes í Frakklandi til AIK.

„Þeir gáfu mér þennan séns á að spila þessa leiki í fyrra sem gaf mér tækifærið á að komast til Svíþjóðar. Það er frábært að þetta hefur hjálpað mér í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×