Innlent

Ekkert nýtt að for­setinn beri regn­boga­arm­band

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á myndinni sést regnbogaarmband Elizu vel en Guðni ber Kraftsarmbandið og regnbogaarmbandið á hægri hendi.
Á myndinni sést regnbogaarmband Elizu vel en Guðni ber Kraftsarmbandið og regnbogaarmbandið á hægri hendi. hari
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur borið regnbogaarmband hinsegin fólks allt frá því að hann fékk slíkt armband að gjöf skömmu eftir embættistöku árið 2016. Þetta kemur fram í svari embættis forseta Íslands við fyrirspurn Vísis.

Það vakti athygli þegar Guðni og Eliza Reid, forsetafrú, hittu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og Karen Pence, eiginkonu hans, í Höfða í gær að þau skyldu bera regnbogaarmband.

Sérstaklega var tekið eftir armböndunum vegna þess að Pence hefur verið gagnrýndur fyrir að leggja stein í götu réttindabaráttu hinsegin fólks í Bandaríkjunum.

Hann greiddi til dæmis atkvæði gegn því á Bandaríkjaþingi árið 2007 að sett  yrðu lög sem bönnuðu mismunun gagnvart hinsegin fólki á vinnustöðum.

Þá hefur Pence sagt að það vera hinsegin sé val og að það að hindra hjónabönd samkynhneigðra sé ekki mismunun heldur sé með því verið að framfylgja hugmynd guðs.

Vísi lék forvitni á að vita hvort að forseti Íslands hefði sett regnbogaarmbandið upp sérstaklega í tilefni fundarins með Pence í gær til að sýna samstöðu með hinsegin fólki.

Í svari frá forsetaembættinu segir að skömmu eftir embættistöku hafi Guðna verið gefið regnbogaarmband. Síðan þá hefur hann borið þannig armband sem og armband frá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Forseti Íslands gaf að öðru leyti ekki kost á viðtali um fund sinn með varaforseta Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Regnbogafánar í rigningu við Höfða

Á meðan starfsfólk Höfða dregur íslenska og bandarískan fána að húni vegna komu Mike Pence má sjá regnbogafánann við hún við höfuðstöðvar Advania.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×