Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍBV 4-0 | Valskonur aftur á toppinn

Axel Örn Sæmundsson skrifar
vísir/daníel
Á Origovellinum á Hlíðarenda í dag mættust lið Vals og ÍBV í 16.umferð Pepsi deildar kvenna. Valskonur voru fyrir leik í 2.sæti deildarinnar með 43 stig á meðan að Eyjakonur voru í 8.sæti með 12 stig í bullandi fallbaráttu.

Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda í leiknum í dag og því mikið undir fyrir bæði lið. Með sigri myndu Valskonur koma sér aftur í 1.sæti deildarinnar og upp fyrir Breiðablik en með sigri ÍBV þá kæmu þær sér nokkrum stigum frá fallbaráttunni og væru því í fínum málum.

Leikurinn fór ansi fjöruglega af stað á Hlíðarenda en það voru Valskonur sem voru mikið sterkari. Valskonur náðu snemma að búa sér til færi í leiknum og komast í góða sénsa sem þær nýttu ekki nægilega vel til að byrja með. ÍBV fékk fá færi í fyrri hálfleik en hefðu getað komist yfir á 7.mínútu þegar að Emma Kelly ýtti boltanum rétt framhjá markinu.

Það dró til tíðinda á 30.mínútu þegar að Hlín Eiríksdóttir skoraði fyrsta mark Vals eftir stórkostlega sendingu Hallberu Gísladóttur. Valskonur komust fljótlega í 2-0 þegar að Elín Metta kom sér í gott færi sem Guðný varði stórkostlega út í teiginn og Margrét Lára var fyrst að ráðast á boltann og koma Val í 2-0. Þriðja mark Vals kom aðeins upp úr þurru þegar að Hallbera fær boltann út í horni og kemur með stórkostlega sendingu fyrir markið sem Elín Metta skallaði inn. Staðan 3-0 í hálfleik og Valskonur litu frábærlega út.

Seinni hálfleikurinn fór alveg eins af stað og fyrri hálfleikurinn endaði en Valskonur voru með boltann og að skapa sér færi. Það tók Valskonur ekki nema 2 mínútur í seinni hálfleik að skora en þar var Margrét Lára Viðarsdóttir að verki. Dóra María með góða fyrirgjöf sem Margrét skallar í markið.

Það gerðist ekki margt annað sem var bitastætt en Valskonur sigldu heim öruggum 4-0 sigri hér í dag. Staðan í deildinni er því þannig að Valskonur eru komnar í fyrsta sæti deildarinnar með 46 stig á meðan að ÍBV situr ennþá í 8.sæti þökk sé Stjörnukonum sem lögðu Keflavík að velli 4-1. 

Af hverju vann Valur?

Mikið betri leikmenn og mikið betra lið. Þetta er ekki flókið. Einstaklingsgæðin í þessu Valsliði eru ótrúleg. Augljóslega meistaraefni að spila á móti fallbaráttuliði. Spilamennskan frábær hjá Val í dag.

Hverjar stóðu uppúr?

Hallbera Guðný Gísladóttir var stórkostleg í dag. Geggjaðir krossar og var upp og niður kantinn eins og rennilás. Stórkostleg frammistaða hjá henni í dag með tvær stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍBV var hrikalegur hérna í dag. Valskonur fá urmul af færum og voru alltaf líklegar til að skora og Eyjakonur virtust alltaf vera skrefinu á eftir heimastúlkum. ÍBV náði að skapa sér nokkur færi en nýtingin á þessum færum var ekki boðleg.

Hvað gerist næst?

Valskonur mæta Breiðablik næsta sunnudag í nánast hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 2019 á Kópavogsvelli. Eyjakonur halda áfram að berjast fyrir lífi sínu í deildinni þegar þær fá botnlið HK/Víkings í heimsókn til Vestmannaeyja. Næstu leikir beggja liða munu sennilega segja til um sumarið hjá þeim þetta árið. 

 

 

Pétur Pétursson þjálfar lið Valsvísir/bára
Pétur Pétursson: Ég ætla ekki að fara að segja þér það

„Mér líður bara mjög vel með þetta“ sagði fámáll Pétur Pétursson þjálfari Vals eftir 4-0 sigur gegn ÍBV í dag.

„Mér fannst þetta þolinmæðisvinna sérstaklega í byrjun, þær voru mjög taktískar til baka og gerðu það mjög vel. Þegar við náðum fyrsta markinu þá náðum við aðeins að róa þetta.“

Valsliðið var aðeins rólegra í seinni hálfleik og manni fannst þær vera orðnar saddar. Þær sköpuðu sér nokkur færi en voru að halda frábærlega í boltann. Aðspurður hvort hann hefði lagt upp eitthvað annað í seinni hálfleikinn svaraði Pétur.

„Við vildum bara spila okkar leik áfram og halda boltanum og láta hann rúlla og við náðum því“

Næsti leikur Vals er úrslitaleikur gegn Breiðablik. Það verður allt undir þegar að Valskonur mæta í Kópavoginn í næstu viku. Valsliðið leit mjög vel út í dag og aðspurður hvað Valskonur þyrftu að gera til að sigra leikinn svaraði hann hlæjandi

„Ég ætla ekki að fara að segja þér það!“ 

 

Jón Ólafur Daníelssonvísir/daníel
Jón Ólafur Daníelsson: Mínar stúlkur gerðu allt sem fyrir þær var lagt

„Við vorum mjög vængbrotnar og að mæta þannig gegn frábæru liði Vals, það er erfitt“ sagði Jón Ólafur Daníelsson þjálfari ÍBV eftir 4-0 tap í dag.

„Mínar stúlkur gerðu allt sem fyrir þær var lagt og fengum 2 dauðafæri og hefðum getað komist yfir en svona er þetta, það hefur ekkert fallið með okkur í sumar og það virðist ekki ætla að fara að byrja núna“

Það vantaði nokkra fína leikmenn í lið ÍBV í dag og byrjaði meðal annars Helena Jónsdóttir inná sem er fædd árið 2004. Gríðarlega efnilegur leikmaður á ferðinni þar.

„Framlag leikmannana minna í dag var frábært, eins og ég segji þá vorum við vængbrotnar og stillum upp með alveg kornungar stelpur inná sem eru að standa sig frábærlega þannig að ég er stoltur af þeim.“

Jón var ekki ánægður með það að HK/Víkings liðið fær 2 daga lengur í frí heldur en ÍBV liðið og gagnrýndi hann stjórnvöldin aðeins fyrir það.

„Við þurfum að einbeita okkur að næsta verkefni núna sem er eftir nokkra klukkutíma, ósanngjarnt fyrir okkur að spila sunnudag og miðvikudag á meðan að andstæðingurinn spilar á föstudegi og miðvikudegi. En það var ekkert hlustað á það“

Næsti leikur ÍBV er gegn HK/Víking á miðvikudaginn næsta í Vestmannaeyjum. Þessi lið þurfa bæði nauðsynlega á sigri að halda til þess að eiga séns á að halda sér uppi í deild þeirra bestu.

„Það er algjörlega þannig, ef við ætlum að vera í deildinni þá þurfum við bara að vinna þann leik, það er enginn vafi á því.“

Hallbera Guðný Gísladóttirvísir/bára
Hallbera Guðný Gísladóttir: Ég er hrikalega spennt

„Ég er mjög sátt með þetta, við ætluðum að klára þennan leik og þetta var þokkalega vel gert. Vorum aðeins rólegar í seinni hálfleik og hefðum getað gert betur en svona er þetta.“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir leikmaður Vals eftir 4-0 sigur gegn ÍBV í dag.

„Mér leið mjög vel og búið að líða vel í allt sumar. Við erum búnar að spila vel, það er sama hvert þú horfir í liðið okkar í sumar það eru allir búnir að spila vel og vonandi getum við klárað síðustu tvo leiki svona“

Eins og áður hefur komið fram mun leikur Breiðabliks og Vals í næstu viku vera úrslitaleikur upp á það hvort liðið verður Íslandsmeistari árið 2019. Hallbera var gríðarlega spennt fyrir þessum leik og búin að bíða eftir honum.

„Ég er hrikalega spennt. Það er búinn að vera fiðringur í manni í allt sumar vitandi það að þetta verður úrslitaleikur og nú er það bara komið í ljós og ég hef spilað nokkra úrslitaleiki og það er bara ógeðslega gaman og ég veit að það verður fullt af fólki á vellinum og gott veður vonandi“

Aðspurð að því hvort það verði erfitt fyrir Valsliðið að mótivera sig í þennan leik svaraði hún:

„Ég hugsa að það verði ekki erfitt að mótivera okkur í þennan leik, við erum með óbragð í munninum eftir fyrri leikinn sem mér fannst við missa óréttilega niður í jafntefli og við ætlum bara að klára þennan leik“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira