Fótbolti

Eto'o leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eto'o fagnar marki sínu með Barcelona gegn Arsenal í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2006.
Eto'o fagnar marki sínu með Barcelona gegn Arsenal í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2006. vísir/getty
Samuel Eto'o, fyrrverandi framherji Barcelona, Inter og fleiri liða, hefur lagt skóna á hilluna. Hann er 38 ára og lék síðast með Qatar SC.

Eto'o vann það einstaka afrek að vinna þrefalt tvö ár í með tveimur mismunandi liðum; Barcelona 2009 og Inter 2010. Kamerúninn vann einnig Meistaradeildina með Barcelona 2006. Hann skoraði í úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar 2006 og 2009.

Eto'o fór til Real Madrid 1997, þegar hann var aðeins 16 ára. Hann lék aðeins sjö leiki með aðalliði Real Madrid.

Eto'o fagnar eftir úrslitaleik Inter og Bayern München í Meistaradeildinni 2010.vísir/getty
Eto'o vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Mallorca og var seldur til Barcelona 2004. Hann varð þrisvar sinnum spænskur meistari með Börsungum og skoraði 130 mörk í 199 leikjum fyrir liðið.

Barcelona og Inter skiptu á Eto'o og Zlatan Ibrahimovic 2009. Eto'o vann þrennuna á fyrra tímabilinu með Inter og varð bikarmeistari á því seinna.

Síðustu ár ferilsins lék Eto'o með Anzhi Makhachkala í Rússlandi, Chelsea og Everton á Englandi, Antalyaspor og Konyaspor í Tyrklandi og Qatar SC í Katar.

Eto'o er markahæstur í sögu kamerúnska landsliðsins með 56 mörk. Hann varð tvisvar sinnum Afríkumeistari með Kamerún og Ólympíumeistari 2000. Eto'o var fjórum sinnum valinn knattspyrnumaður ársins í Afríku, oftar en nokkur annar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×