Fótbolti

Southgate: Framlína Englands ein sú besta

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Raheem Sterling, Marcus Rashford og Harry Kane mynda hættulegt þríeyki
Raheem Sterling, Marcus Rashford og Harry Kane mynda hættulegt þríeyki vísir/getty
Gareth Southgate segir framlínu sína hjá enska landsliðinu vera í heimsklassa og með þeim mest spennandi í heiminum.

Harry Kane fer fyrir framlínu Englands en hann skoraði þrennu í sigri Englands á Búlgaríu á laugardag. Hann er með 25 landsliðsmörk í 40 leikjum fyrir England.

Með honum frammi eru Raheem Sterling og Marcus Rashford, sem báðir hafa gert það gott síðustu misseri, og þá eru ungstirnin Jadon Sancho og Callum Hudson-Odoi einnig í áætlunum Southgate fyrir framtíðina.

„Ég held við eigum alveg jafn spennadi framlínur og hver annar,“ sagði Southgate.

„Ég man að þegar við mættum Spánverjum þá hugsaði ég, jú þetta verður erfiður leikur en ef þú horfir á okkar fremstu þrjá og þeirra fremstu þrjá, þá erum við bara mjög sterkir.“

„Með Sancho og Hudson-Odoi tilbúna til þess að brjóta sér leið inn í liðið þá erum við mjög spennandi.“

England mætir Kosovó á þriðjudagskvöld í seinni leik sínum í þessum landsleikjaglugga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×