Innlent

Svíþjóð auðveldari kostur en höfuðborgin

Sveinn Arnarsson skrifar
Að mati Hildar er auðveldara og ódýrara að flytja til Svíþjóðar en Reykjavíkur. Ungt afreksfólk vill geta stundað æfingar við bestu aðstæður, sem eru oftast nær á höfuðborgarsvæðinu.
Að mati Hildar er auðveldara og ódýrara að flytja til Svíþjóðar en Reykjavíkur. Ungt afreksfólk vill geta stundað æfingar við bestu aðstæður, sem eru oftast nær á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið/Pjetur

Erfitt getur verið fyrir ungt fólk á landsbyggðinni að flytja á höfuðborgarsvæðið og stunda þar menntaskóla. Enginn menntaskóli á höfuðborgarsvæðinu starfrækir heimavist. Mæðgur á Akureyri brugðu á það ráð að flytja frekar til Svíþjóðar til að elta drauma dótturinnar.

Hildur Friðriksdóttir og dóttir hennar Þura Snorradóttir ákváðu í sumar að flytja til Kungsbacka í Svíþjóð. Þar getur Þura iðkað íþrótt sína innandyra auk þess að stunda nám í menntaskóla.

„Á Akureyri er aðeins útilaug og dóttur mína langaði að æfa við betri aðstæður. Tækniæfingar í þessari íþrótt eru svolítið erfiðar utandyra,“ segir Hildur. Allar yfirbyggðar stórar æfingasundlaugar eru staðsettar nærri höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar var það erfiðleikum háð fyrir Þuru að flytja til Reykjavíkur. „Leigumarkaðurinn í Reykjavík er hins vegar þannig að það er ógerlegt fyrir okkur að senda hana þangað.“

Fjölskyldan ákvað því að Hildur og Þura færu saman til Svíþjóðar en Snorri, eiginmaður Hildar, og yngri dóttir þeirra, verða eftir á Akureyri. „Fyrst töldum við þetta svolítið fjarlægt. Hins vegar skoðuðum við málið og því meira sem við lögðumst yfir þetta sáum við að þetta var í raun miklu betri kostur en að fara til Reykjavíkur,“ segir Hildur. „Það virðist vera mun auðveldara að reka tvö heimili í Svíþjóð og á Íslandi en í Reykjavík og á Akureyri. Hér í Svíþjóð er mjög vel haldið utan um menntaskólanema með ókeypis almenningssamgöngum, fríum skólamáltíðum og íþróttaiðkun er mun ódýrari en á Íslandi. Þegar á heildina er litið er þetta því ódýrari kostur fyrir fjölskylduna.“

Þura stundar því nám á sérstakri sundíþróttalínu og æfingar eru felldar inn í stúdentsnámið. Hildur hefur fengið starf við móðurmálskennslu og á sambýli fyrir fatlaða einstaklinga. Að mati Hildar er mjög skrýtið að þetta sé veruleikinn, það er hversu lítil þjónusta er fyrir hendi fyrir íslensk ungmenni af landsbyggðinni til að stunda nám í höfuðborginni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.