Innlent

Lokanir hækki ekki kostnað

Ari Brynjólfsson skrifar
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík
Tryggja þarf að kostnaður við mat hækki ekki og útfæra verður hugmyndina vel ef leggja á niður mötuneyti opinberra starfsmanna, segir Jakobína Þórðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Sameyki, stéttarfélagi í almannaþjónustu.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til í grein í Fréttablaðinu í gær að loka opinberum mötuneytum til að starfsmenn snæði frekar á veitingahúsum. Yrði þá byrjað á að loka mötuneytinu í Ráðhúsinu.

Jakobína segir hugmyndina ekki nýja af nálinni. Ef farið yrði í slíkar breytingar þyrfti að útfæra þær með hliðsjón af matarhléi starfsmanna. „Það vakna ýmsar spurningar, til dæmis hvort hálftíma matarhlé muni þá duga. Þá vaknar upp spurningin hvernig það rímar við styttingu vinnuvikunnar,“ segir Jakobína. „Þetta er alveg hugmynd til að styðja við veitingastaði í borginni. En hvort þetta sé raunhæft, það get ég ekki sagt nema hugmyndin sé vel útfærð.“

Mestu máli skiptir að slík breyting hækki ekki kostnað starfsmanna. „Verðið þyrfti að vera sambærilegt, breyting af þessu tagi má ekki auka kostnað starfsmanna.“

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, er ekki hrifin af hugmyndinni. „Starfsfólkið okkar hefur sem betur fer sjálfræði um hvernig það eyðir sínum frístundum,“ segir Dóra. „Ég sé enga ástæðu til að taka undir hugmynd sem snýst um að fækka valmöguleikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×