Innlent

Vilja láta taka niður steinvegg hvalaskoðunarfyrirtækis

Sveinn Arnarsson skrifar
Hlaðni steinveggurinn sem um ræðir umlykur lóð hvalaskoðunarfyrirtækisins við Hafnarstétt á Húsavík.
Hlaðni steinveggurinn sem um ræðir umlykur lóð hvalaskoðunarfyrirtækisins við Hafnarstétt á Húsavík.

Norðurþing hefur farið fram á það við hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants að fjarlægt verði mannvirki sem fyrirtækið nýtir við Hafnarstétt á Húsavík. Ekki hafa fengist tilætluð leyfi að mati sveitarfélagsins fyrir mannvirkinu og er það því kallað óleyfismannvirki.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Norðurþings sendi fyrirtækinu Gentle Giants bréf þann 16. ágúst þar sem þess er einfaldlega krafist að fjarlægt verði það mannvirki sem stendur utan lóðar fyrirtækisins við Hafnarstétt 13. Mannvirkið er í raun hlaðinn veggur sem umlykur lóðina, steinveggur sem er utan lóðarmarka.

Gaukur Hjartarson, skipulags- og byggingarfulltrúi Norðurþings, segir málið hafa hafist í ágúst í fyrra þegar hann hafi orðið þess áskynja að framkvæmdir væru hafnar við þennan steinvegg utan lóðarmarka. Var þá farið fram á verkstöðvun og að veggurinn yrði fjarlægður.

„Sú ákvörðun sveitarfélagsins var svo kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin kvað svo upp í lok síðasta árs sveitarfélaginu í vil,“ segir Gaukur. „Þá fór sveitarfélagið í það að reyna að koma á samkomulagi við fyrirtækið en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ekki viljað ganga að því samkomulagi.“

Því eru skiptar skoðanir á málinu og menn ekki á eitt sáttir um lyktir mála. Ljóst er samkvæmt fundargerðum skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings að nú sé mál að linni og umleitanir um samkomulag ekki í höfn. „Fyrirtækið hefur síðan haldið áfram að framkvæma utan lóðarmarka eftir að úrskurður var kveðinn upp, umfram það sem áður var,“ bætir Gaukur við.

Saga hvalaskoðunar á Húsavík er nokkuð löng og hún er ein af undirstöðum ferðaþjónustu í bænum. Að minnsta kosti fjögur fyrirtæki, misstór að vanda, hafa starfað við hvalaskoðun á svæðinu í gegnum tíðina og er Gentle Giants eitt það stærsta á landinu og sinnir tugþúsundum gesta ár hvert. Um það bil níu skip eru í notkun hjá fyrirtækinu og eru svokallaði RIB-bátar, hraðskreiðir opnir harðskeljabátar, þeir vinsælustu innan flotans.

Stefán Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins Gentle Giants, vildi ekki veita viðtal vegna málsins þegar Fréttablaðið náði tali af honum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.