Innlent

Óraunhæft að Bretland gangi í EFTA

Ari Brynjólfsson skrifar
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Vísir/Hanna

„Þeirri hugmynd hefur áður verið hreyft að Bretar gangi inn í EFTA, bæði af núverandi og fyrrverandi utanríkisráðherra, og gangi þá jafnvel inn í EES líka. Þessu hafa þó bæði ráðamenn í Noregi og Sviss verið andvígir,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Baldur segir óraunhæft að Bretar gangi inn í EFTA og þannig inn í EES vegna andstöðu ráðamanna í Noregi og Sviss. Ráðamenn ríkjanna segja samstarf EFTA og ESB ganga mjög vel, ef Bretar ganga þar inn gæti það orðið til að slettist upp á vinskapinn. „Svisslendingar og Norðmenn eru valdamiklir í EFTA, en ef Bretar ganga þar inn yrðu þeir langstærstir og hætta er á að þeir myndu ráða þar för og að þessi ríki misstu spón úr aski sínum.“

Staðan er einnig snúin í Bretlandi hvað inngöngu í EES varðar, segir Baldur. Ólíklegt sé að þeir sem vilja að Bretland gangi úr Evrópusambandinu vilji ganga inn í EES þar sem EFTA-ríkin í EES hafi mjög lítið að segja um lög sem komi frá Brussel.

„Brexit-sinnar eru auk þess flestir mjög andsnúnir frjálsri för fólks innan ESB og EES og þeir vilja að Bretar stýri för. En fjórfrelsið er grundvallaratriði í EES-samningnum og þar á meðal frjáls för fólks,“ segir Baldur. „Menn hafa skoðað þetta og velt þessu upp, bæði hér á Íslandi og í Bretlandi, en flestir eru búnir að ýta þessu út af borðinu vegna þessara þátta. Þannig að það er ekki mjög raunhæft að þetta gerist í næsta mánuði eða yfirhöfuð.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.