Innlent

Óraunhæft að Bretland gangi í EFTA

Ari Brynjólfsson skrifar
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Vísir/Hanna
„Þeirri hugmynd hefur áður verið hreyft að Bretar gangi inn í EFTA, bæði af núverandi og fyrrverandi utanríkisráðherra, og gangi þá jafnvel inn í EES líka. Þessu hafa þó bæði ráðamenn í Noregi og Sviss verið andvígir,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Baldur segir óraunhæft að Bretar gangi inn í EFTA og þannig inn í EES vegna andstöðu ráðamanna í Noregi og Sviss. Ráðamenn ríkjanna segja samstarf EFTA og ESB ganga mjög vel, ef Bretar ganga þar inn gæti það orðið til að slettist upp á vinskapinn. „Svisslendingar og Norðmenn eru valdamiklir í EFTA, en ef Bretar ganga þar inn yrðu þeir langstærstir og hætta er á að þeir myndu ráða þar för og að þessi ríki misstu spón úr aski sínum.“

Staðan er einnig snúin í Bretlandi hvað inngöngu í EES varðar, segir Baldur. Ólíklegt sé að þeir sem vilja að Bretland gangi úr Evrópusambandinu vilji ganga inn í EES þar sem EFTA-ríkin í EES hafi mjög lítið að segja um lög sem komi frá Brussel.

„Brexit-sinnar eru auk þess flestir mjög andsnúnir frjálsri för fólks innan ESB og EES og þeir vilja að Bretar stýri för. En fjórfrelsið er grundvallaratriði í EES-samningnum og þar á meðal frjáls för fólks,“ segir Baldur. „Menn hafa skoðað þetta og velt þessu upp, bæði hér á Íslandi og í Bretlandi, en flestir eru búnir að ýta þessu út af borðinu vegna þessara þátta. Þannig að það er ekki mjög raunhæft að þetta gerist í næsta mánuði eða yfirhöfuð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×