Innlent

Hlé gert á leit í kvöld en sérsveitarmenn ræstir út á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá leit í Þingvallavatni um helgina. Mikill öldugangur var í vatninu og leitarskilyrði slæm.
Frá leit í Þingvallavatni um helgina. Mikill öldugangur var í vatninu og leitarskilyrði slæm. Mynd/Landsbjörg

Hlé hefur verið gert á leit að belgíska ferðamanninum sem talið er að hafi fallið í Þingvallavatn um helgina. Leitin bar ekki árangur en kafarar, þar á meðal sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra, halda áfram leit á morgun.

Gunnar Ingi Friðriksson formaður svæðisstjórnar Árnessýslu segir í samtali við Vísi að leitin í kvöld hafi gengið vel, veður með ágætum og vatnið tært. Um 30 manns úr björgunarsveitum Árnessýslu hófu leit um klukkan sex síðdegis. Leitað var á bátum og gengið í fjörur við sunnanvert vatnið, nánar tiltekið við Ölfusvatnsvík við Villingavatn þar sem bátur mannsins fannst á laugardag.

Þá hafa kafarar frá björgunarsveitum á Suðurnesjum leitað í vatninu frá því snemma í morgun og héldu áfram fram á kvöld. Leitin var blásin af á tíunda tímanum en á morgun halda kafarar henni áfram. Þá mun kafarasveit frá sérsveit Ríkislögreglustjóra einnig kafa við Steingrímsstöð.

Gunnar segir að ekkert hafi fundist við leitina í kvöld sem hjálpi til við að finna manninn, hinn 41 árs Björn Debecker. Gengið er út frá því að hann hafi fallið útbyrðis er hann sigldi á kajak út á Þingvallavatn um helgina.

Lögregla á Suðurlandi hefur verið í sambandi við fjölskyldu Debeckers. Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi sagði í samtali við Vísi fyrr í kvöld að bróðir hans væri nú kominn til landsins til að fylgjast með leitinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.