Innlent

Slökkva þarf á Stein­gríms­stöð svo sér­sveitar­menn geti at­hafnað sig við leit í Þing­valla­vatni

Birgir Olgeirsson skrifar
Steingrímsvirkjun.
Steingrímsvirkjun. vísir/einar

Björgunarsveitarmenn og lögreglan á Suðurlandi munu hefja leit á ný í dag að belgíska ferðamanninum sem er talinn hafa fallið í Þingvallavatn á laugardag. Munu björgunarsveitarmenn hefja leit klukkan fimm í dag en ekkert hefur verið leitað að hinum 41 árs gamla Björn Debecker síðan í hádeginu á mánudag vegna mikils vinds.

Munu leitarmenn einbeita sér að suðurenda Þingvallavatns, þar sem Villingavatn er, og áætlað að leitað verði fram á tíunda tímann í kvöld.

Búist er við að björgunarsveitarmenn muni stunda yfirborðsköfun með snorku við leitina í dag og ef veður leyfir verður notast við dróna sem flogið verður yfir vatnið.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að sérsveitarmenn muni kafa í vatninu á morgun en það þarf að slökkva á Steingrímsstöð svo óhætt sé fyrir þá að kafa.

Í Steingrímsstöð er virkjað fall Efra-Sogs úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn.

Gengið er út frá því að Debecker hafi fallið útbyrðis þegar hann sigldi á kajak á vatninu um helgina. Debecker er tveggja barna faðir frá Leuven, menntaður verkfræðingur og mikill heimshornaflakkari. Hann hafi komið víða við á ferðalögum sínum um heiminn og m.a. tjaldað við jökulrætur í Alaska, skíðað í Ölpunum og kafað í Víetnam. Þá hafi hann einnig verið búsettur í Noregi á tímabili.

Debecker er jafnframt sagður hafa leitað upplýsinga hjá þjóðgarðsvörðum áður en hann týndist. Þá virðist sem hann hafi gist í tjaldi við norðanvert vatnið.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.