Fótbolti

Alþjóðlega fótboltaspillingin nær til átta leikmanna á Íslandi

Benedikt Bóas skrifar
47 landsleikir voru merktir grunaðir um spillingu, þar af fimm af 10 landsleikjum hjá einu liðinu. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
47 landsleikir voru merktir grunaðir um spillingu, þar af fimm af 10 landsleikjum hjá einu liðinu. Myndin tengist ekki fréttinni beint. Fréttablaðið/Ernir
Ný skýrsla frá Starlizard Integrity Services, í samstarfi við Stats perform og TXOdds, sýnir örlitla fækkun á grunsamlegum veðmálum tengdum fótbolta. Tveir leikir, flokkaðir í A-flokk, koma þó í fyrsta sinn fyrir í skýrslunni vegna gruns um spillingu. Aldrei áður hefur leikur í þeim flokki komið fyrir í skýrslu af þessu tagi. Í A-flokki teljast leikir á HM og aðrir stórleikir. Alls voru 377 leikir merktir sem grunsamlegir í skýrslunni en þeir voru 397 fyrir árið 2017. Mun fleiri leikir voru þó skoðaðir í fyrra.

Alls voru skoðaðir yfir 62 þúsund leikir í 115 löndum sem þýðir að í aðeins 0,61 prósenti leikja sem voru skoðaðir var grunur um að leyndist óhreint mjöl í pokahorninu. Leikirnir ná frá karla- og kvennaflokki og niður í unglingaflokk.

Flestir leikir voru skoðaðir í Evrópu eða 35.469 og voru 227 merktir sérstaklega vegna gruns um spillingu.

Af þeim 377 leikjum sem merktir voru vegna gruns um spillingu voru 58 í yngri flokkum. Skýrslan nafngreinir ekki deild eða leiki en tekur fram að í einni unglingadeild í Evrópu hafi verið gríðarlega mikið veðjað á úrslit.

47 landsleikir voru merktir, þar af fimm af tíu landsleikjum hjá einu landsliði á árinu. Grunsemdir um spillingu eru sem fyrr mestar í Asíu samkvæmt skýrslunni.

Í könnun sem Leikmannasamtökin létu gera meðal leikmanna í efstu deild hér heima, og 191 leikmaður tók þátt í, kom fram að rætt hefði verið við átta leikmenn á þessu ári um að úrslitum hefði verið hagrætt, eða fjögur prósent.

Sama prósentutala var í könnun ársins 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×