Erlent

Morð á lögreglumanni vekur óhug í Bretlandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Andrew Harper og eiginkona hans til fjögurra vikna, Lissie, í brúðkaupi þeirra í júlí síðastliðnum.
Andrew Harper og eiginkona hans til fjögurra vikna, Lissie, í brúðkaupi þeirra í júlí síðastliðnum. Mynd/Mark Lord
Umfangsmikilli lögreglurannsókn hefur verið hrint af stað eftir að breskur lögreglumaður var myrtur í Berkskíri á Englandi í gær. Þrettán ára piltur er á meðal tíu karlmanna sem handteknir hafa verið vegna málsins.

Andrew Harper, sem starfaði hjá lögreglunni í Thames Valley, var að sinna útkalli vegna ráns þegar bíl var ekið á hann. Harper, sem var 28 ára, er sagður hafa dregist með bílnum eftir götunni. Málið er rannsakað sem morð.

Þá hafa breskir fjölmiðlar greint frá því að Harper hafi gengið í hjónaband fyrir mánuði. Honum hefur verið lýst sem vinsælum og viðmótsþýðum manni, sem starfað hafði hjá lögreglunni síðan árið 2010.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Bretlandi, einkum í ljósi árása á lögreglumenn þar í landi síðustu misseri. Maður vopnaður sveðju réðst á lögreglumann í London í síðustu viku og annar lögreglumaður liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir að grunaður bílaþjófur ók á hann í Birmingham.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands er á meðal þeirra sem vottað hafa aðstandendum Harpers samúð sína. Þá lýsti hann yfir áhyggjum af stöðu mála.

Tíu karlmenn á aldrinum 13 til 30 ára voru handteknir vegna gruns um morð innan við klukkutíma eftir að ekið var á Harper. Lík Harpers var krufið í dag og rannsókn málsins heldur áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×