Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Valur 3-3 | Jafnt í sex marka stórleik

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Blikar fagna marki Andra Rafns.
Blikar fagna marki Andra Rafns. vísir/bára
Sex mörk litu dagsins ljós í Kópavogi í kvöld þegar Breiðablik og Valur skyldu jöfn í stórleik umferðarinnar. Valur byrjaði leikinn betur og náði forystunni snemma en eins og svo oft áður töpuðu þeir henni niður. Breiðablik jafnaði leikinn áður en flautað var til hálfleiks en staðan þá 2-2. 

Það voru gestirnir frá Hlíðarenda sem byrjuðu leikinn betur á meðan það tók Blikana smá tíma að komast í gang. Fyrsta markið kom eftir um stundarfjórðungs leik, Kristinn Freyr Sigurðsson hóf þar frábæra sókn sem endaði á því að Birkir Már Sævarsson skoraði fyrir gestina enn aðeins fimm mínútum síðar bættu þeir við öðru marki. Andri Adolphsson átti þar góðan undirbúning og endaði á fyrirgjöfinni þar sem Patrick Pedersen var mættur og skoraði af öryggi. Valsmenn leiddu því með tveimur mörkum eftir aðeins 20 mínútna leik.

Brynjólfur Darri Willumsson, sem fékk tækifærið í dag meðan Thomas Mikkelssen tók út leikbann, minnkaði muninn fyrir Blika með góðu marki á 37 mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Gísla Eyjólfssonar. Brynjólfur var þar vel staðsettur og fljótur að hugsa þegar hann kláraði þetta færi.

Andri Rafn Yeoman jafnaði leikinn aðeins þremur mínútum síðar með frábæru marki eftir hornspyrnu Guðjóns Péturs Lýðssonar. Hannes Þór kýldi boltann út enn Andri Rafn tók boltann á lofti og náði föstu skoti á markið þar sem Hannes Þór átti engan möguleika á að verja frá honum. Heimamenn náðu því að jafna leikinn áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks en staðan að honum loknum, 2-2.

Breiðablik hafði góð tök á leiknum í síðari hálfleik og bætti við þriðja markinu á 60. mínútu. Brynjólfur Darri var þar aftur á ferðinni, hann átti skot á markið sem lak í gegnum vörn Valsmanna og framhjá Hannesi Þór í markinu enn heimamenn komnir með forystuna eftir að hafa verið tveimur mörkum undir.

Það benti ekkert til þess að Valur væri að fara að bæta við marki heldur voru það Blikarnir sem voru hættulegri í sínum aðgerðum. Það voru þó Valsmenn sem jöfnuðu leikinn á 70. mínútu. Birkir Már Sævarsson átti fyrirgjöf sem Haukur Páll skallaði í netið, reynslan að skila marki þar og staðan aftur jöfn, 3-3, sem urðu lokatölur í leiknum. 

Pedersen kemur Val í 0-2.vísir/bára
Af hverju varð jafntefli? 

Leikurinn var kaflaskiptur þar sem bæði lið áttu sín áhlaup. Breiðablik var betri aðilinn á stærri hluta leiksins en þeir voru óheppnir þegar þeir fengu á sig þriðja markið eftir að hafa verið með góð tök á leiknum í síðari hálfleik.

Byrjunin hjá Val gaf þeim þetta stig í dag en þeir byrjuðu leikinn af krafti og skiluðu þessum tveimur mörkum sem gaf þeim gott forskot. 

Hverjir stóðu upp úr?

Það voru ekki margir leikmenn sem áttu góðar 90 mínútur í dag, Brynjólfur Darri Willumsson átti þó virkilega góða innkomu og skoraði tvö mörk. 

Birkir Már Sævarsson átti fínan leik í liði Vals, skoraði eitt mark og lagði upp annað en fékk þó á sig þrjú mörk sem er ekki til afspurnar hjá varnarmönnum. 

Hvað gekk illa? 

Fyrst og fremst hvernig Blikarnir koma inní þennann leik, þeir voru hálf sofandi og virtust ekki vakna fyrr en eftir seinna markið. Að sama skapi hvernig Valur leyfði Breiðablik að taka yfir leikinn og missa enn eina ferðina forystuna niður.  

Hvað gerist næst?

Það eru stórleikir framundan í næstu umferð þegar að Breiðablik mætir FH í Kaplakrika og Valur fær Stjörnuna í heimsókn. Fjögur af efstu liðum deildarinnar að mætast þar og öll þurfa þau á stigunum þremur að halda. 

Brynjólfur Darri í baráttu við Valsmanninn Eið Aron Sigurbjörnsson.vísir/bára
Brynjólfur Darri: Ég er alltaf með gott sjálfstraust

Brynjólfur Darri Willumsson, leikmaður Breiðabliks, átti góðan leik í dag þar sem hann skoraði tvö mörk. Hann hefur ekki verið að spila mikið í sumar en kom inn í byrjunarlið Blika í dag meðan Thomas Mikkelsen tók út leikbann

„Við byrjuðum frekar illa og fengum á okkur tvö klaufaleg mörk. Við töluðum okkur svo saman og rifum okkur í gang“

„Við fórum þá uppá allt annað level, það er ekki hægt að byrja svona með því að fá á sig tvö mörk, það er lélegt“ 

Brynjólfur var ekki sáttur með það hvernig þeir byrjuðu leikinn en segir að það hafi verið allt annað að sjá liðið eftir að þeir töluðu saman og rifu sig í gang en var svekktur með að þeir hafi fengið á sig þetta jöfnunar mark eftir að hafa haft öll tök á leiknum

„Við fórum svo vel gíraðir inní hálfleikinn, byrjuðum svo ágætlega en um leið og við komumst yfir þá fannst mér við vera alveg með þetta þar til við fengum þetta klaufa mark á okkur, þetta á ekki að gerast“

Brynjólfur segist alltaf vera með gott sjálfstraust og tilbúinn í leikinn þegar kallið kemur, hann sýndi það í dag og skilaði tveimur mikilvægum mörkum 

„Mér finnst ég alltaf vera með gott sjálfstraust, mjög gott að fá traustið og ég vonast alltaf eftir að fá fleiri mínútur en Thomas (Mikkelsen) er flottur leikmaður svo það kemur bara í ljós.“ 

 

Valsmenn fagna.vísir/bára
Sigurbjörn: Höfum átt nokkra svona leiki í sumar

Sigurbjörn Hreiðarsson, annar þjálfari Vals, hefði viljað sjá sína menn ná betri forystu í upphafi leiks.

„Við byrjuðum af þvílíkum krafti og ég hefði alveg viljað sjá okkur í 3-0 jafnvel á þessum hálftíma kafla sem við vorum með algjöra yfirburði“

„Svo kemur heppnis mark hjá þeim þar sem boltinn dettur fyrir einhvern og þeir allt í einu komnir inní leikinn. Þá fengu þeir blóð á tennurnar og jafna svo með frábæru marki frá Andra Rafni,“  sagði Bjössi um fyrri hálfleik leiksins.

„Við fórum inní hálfleik og núllstilltum okkar aðeins, en fengum svo á okkur klaufalegt mark í stöðunni 3-2. Mér fannst eiginlega bara fínt að ná að koma tilbaka og jafna þetta. Blikarnir voru kröftugir í seinni hálfleik en við jöfnuðum leikinn“ sagði Bjössi, sem tekur þetta eina stig í kvöld eftir að hafa lent undir í síðari hálfleik.

„Það var alltaf ætlunin að koma af krafti í þennann leik, sem og við gerðum, við vorum kröftugir í byrjun og hefðum átt að refsa þeim meira. Svona er þetta bara, höfum átt nokkra svona leiki í sumar og þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið.“ 

Bjössi vitnar þar í aðra leiki þar sem Valsmenn hafa náð góðri forystu en misst hana niður, þetta virðir vera þeirra saga í sumar og það getur ekki verið tilviljun að alltaf gerist það eftir að Sigurður Egill Lárusson fer af velli. Hann fór einmitt af velli í dag, hann meiddist snemma leiks og þurfti að yfirgefa völlinn. Bjössi segir að óljóst sé hvernig staðan á honum sé enn þeir eigi eftir að meta það á næstu dögum

„Það er alltaf slæmt að missa leikmenn útaf, hann fékk í nárann og var virkilega kvalinn. Við þurfum bara að meta stöðuna á honum,“ sagði Bjössi.

„Það er gríðalega mikilvægur leikur gegn Stjörnunni framundan og ég met stöðuna bara þannig að ef við mætum eins og menn til leiks að þá náum við þessu sæti.“ sagði Bjössi að lokum um framhaldið hjá Val.

Ágúst var ánægður með karakter sinna manna í kvöld.vísir/bára
Ágúst: Hef sjaldan séð okkur spila svona illa

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Breiðabliks, var ósáttur með það hvernig hans menn mættu til leiks en gríðalega ánægður með karakterinn sem þeir sýndu þegar þeir snéru leiknum sér í hag

„Eftir fyrstu 20 mínúturnar þá vorum við bara ekki mættir. Ég hef sjaldan séð okkur spila svona, við gáfum þeim tvö mörk en við komum gríðalega sterkir til baka“ 

Breiðablik tapaði illa fyrir Víkingi í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudaginn var og mikið fíaskó skapaðist eftir leik. Gústi vill ekki meina að sá leikur hafi setið í mönnum og hefur enga skýringu á því af hverju þeir byrjuðu svona illa í dag

„Ég vil ekki kenna því um, það var rosaleg stemning í liðinu á æfingu í gær og fyrir leikinn í dag en við byrjuðum svona sem er mjög óeðlilegt hjá okkur“

„Mér fannst Valsararnir algjörlega stýra leiknum hérna fyrstu 20-25 mínúturnar en svo áttum við þessar 70 mínútur sem eftir voru. Þess vegna var svo fúlt að fá þetta þriðja mark á okkur, við ætluðum okkur að taka öll þrjú stigin“

„Valsmenn eru bara svo sterkir að það má ekki gefa þeim eitt né neitt því þeir nýta sér það og refsa þér. Patrick Pedersen er nátturlega gríðalega hætturlegur leikmaður og getur skoraðu úr nánast engu, við ætluðum að loka á hann í dag en það tókst því miður ekki.“ sagði Gústi sem hrósar þar bæði Valsmönnum og Pedersen sem er alltaf hætturlegur

„Eftir 20 mínútur hefði ég verið sáttur við 1 stig en eftir 90 mínútur hefði ég viljað taka öll þrjú“

Gústi var að vonum ánægður með frammistöðu Brynjólfs Darra í dag og segir að þetta hafi verið rétta mómentið fyrir hann að koma inn

„Hann er mjög flottur, setur tvö mörk í dag og það er kraftur í honum.“ sagði hann að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira