Innlent

Rúm fjörutíu kíló falin í sérinnréttuðum hólfum í fólksbíl

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Tveir erlendir karlmenn voru í morgun úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald fyrir að reyna smygla um fjörtíu kílóum af hörðum efnum inn til landsins með Norrænu. Efnin voru falin í fólksbíl, í sérinnréttuðu hólfi. Um er að ræða eitt af stærri fíkniefnamálum síðustu ára.

Mennirnir voru stöðvaðir af tollvörðum þegar ferjan Norræna kom til hafnar í Seyðisfirði á fimmtudag. Þeir voru leiddir fyrir héraðsdóm Austurlands og voru nú fyrir hádegi úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald að kröfu lögreglustjóra.

Að sögn lögreglu er rannsóknin á viðkvæmu stigi og hefur lögregla ekki viljað gefa upp um hvers konar fíkniefni er að ræða eða hversu mikið. Fréttastofu hefur þó heimildir fyrir því að þetta séu rúmlega fjörutíu kíló af amfetamíni og kókaíni. Sömu heimildir herma að efnin hafi fundist í fólksbíl í sérinnréttuðum hólfum og það hafi verið fíkniefnahundur sem hafi komið tollvörðum á slóðina.

Til þess að komast að efnunum þurfti að flytja bílinn til Reykjavíkur og taka hann í sundur.

Er þetta eitt mesta magn fíkniefna sem lagt hefur verið hald á hér á landi. Mesta magn af sterkum fíkniefnum sem lagt hefur verið hald á var í Papeyjarmálinu fyrir rúmum tíu árum. Í því máli hlutu sex menn dóm fyrir að smygla 55 kílóum af amfetamíni og 9.400 e-töflum til landsins. 

Lögreglan á Austurlandi í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu fer nú með rannsókn málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×