Umfjöllun og viðtöl: Keflavík 0-2 Selfoss | Selfoss upp í 3. sætið

Gabríel Sighvatsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Vísir/Bára
Selfoss gerði góða ferð suður með sjó þegar liðið vann 2-0 sigur á heimakonum í Keflavík í Pepsí Max deild kvenna í kvöld.

Gestirnir komust yfir snemma leiks eftir hornspyrnu þar sem leikmaður Selfoss var fyrstur að átta sig eftir frákast.

Annað mark leiksins kom líka eftir hornspyrnu en þar náði Hrafnhildur Hauksdóttir að pota inn boltanum eftir smá klafs inni í vítateig heimamanna.

Keflavík gerði atlögur að marki Selfyssinga og fengu meðal annars vítaspyrnu undir lok leiks en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan 2-0 fyrir Selfoss.

Af hverju vann Selfoss?

Selfoss gerði vel í föstum leikatriðum, bæði mörkin komu upp úr hornspyrnum og liðið þurfti ekki mörg færi til að skora mörkin sín.

Þá hélt vörnin sínu striki en af síðustu 6 leikjum liðsins hefur liðið haldið hreinu í 5 þeirra sem er mögnuð tölfræði. Enn einn stórleikurinn í vörninni í kvöld.

Hvað gekk illa?

Vörnin hjá Keflavík í föstum leikatriðum var í vandræðum, þær voru ekki að ná að dekka mennina sína og fá þannig á sig tvö mörk.

Sóknin átti líka erfitt uppdráttar, þrátt fyrir góða vörn hjá Selfoss þá fengu sóknarmenn Keflavíkur sín færi en náðu bara ekki að nýta þau.

Hverjir stóðu upp úr?

Kelsey Wys, markmaður Selfyssinga, var frábær í kvöld og að stórum hluta henni að þakka að Selfoss náði að halda núllinu.

Selfoss virkaði eins og alvöru lið sem vann fyrir hvort annað og erfitt að velja einstaka leikmenn úr liðinu. Hinsvegar skoraði Hrafnhildur Hauksdóttir tvö sjaldgæf mörk og ber að hrósa henni fyrir það að vera á réttum stað þegar boltinn barst til hennar.

Hvað gerist næst?

Keflavík þarf að fara að ná í stig en liðið situr enn í 8. sæti og KR þarf ekki nema eitt stig til að senda þær niður í fallsæti. Selfoss er aftur á móti komið upp í 3. sæti eftir að Þór/KA tapaði stigum í umferðinni og verður mikil barátta þeirra á milli um 3. sætið.

Gunnar Magnús: Veit ekki hvað voru mörg spjöld

„Við erum ótrúlega súrar og svekktar yfir tapinu og frammistöðunni, hún var engan veginn nógu góð. Þetta var virkilega mikilvægur leikur og við sáum færi á því að ná í stig í dag.” sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, eftir leikinn í kvöld.

Gunnar var virkilega ósáttur við mörkin sem hans lið fékk á sig.

„Í fyrsta lagi erum við að fá á okkur mörk úr tveimur hornum. Við erum búnar að vera að vinna í því að bæta dekkunina og annað í varnarleiknum, ég var mjög ósáttur við það.”

„Í fyrsta markinu er dekkunin slæm. Þær missa einbeitinguna og missa manninn frá sér. Það var meiri ringulreið í seinna markinu, ég átta mig ekki alveg á hvernig það fór.” sagði Gunnar.

Keflavík fékk sín færi í þessum leik og þ.á.m. vítaspyrnu undir lok leiks sem fór forgörðum.

„Við fengum þónokkuð af færum og þetta víti kóronaði bara leikinn. Það hefði verið sætt að setja vítið það hefði getað sett smá stress í þetta og gefið okkur neista í lokin.”

Það var mikil harka í leiknum og spjöld fljúgandi út um allt um tíma. Gunnar minntist á það hversu mörg spjöld lið hans hefði fengið sagði einnig að þannig spiluðu liðin bara.

„Þetta eru bæði lið sem spila fast og var á köflum spilað vel fast. Ég veit ekki hvað voru mörg spjöld en við fengum allavegana 3-4 spjöld. Þetta var dýr leikur, bæði það að ná ekki í stigin og svo voru þrjár stelpur á gulu spjaldi sem við erum að missa í bann og ein er farin til Bandaríkjanna, þetta var marg súrt.”

Alfreð Elías: Þetta var aldrei víti

Alfreð Elías Jóhannsson var virkilega ánægður með frammistöðu síns liðs í dag.

„Frammistaða liðsins var mjög góð, varnarlega vorum við mjög góð, við erum ekki að fá neitt færi á okkur úr opnu spili og ég er mjög ánægður með það.”

„Aftur á móti vitum við að Keflavík er eitt af þeim betri liðum í innköstum og hornum og við stóðumst það áhlaup, ég veit ekki hvað þær fengu mörg horn og innköst.”

Selfoss er gríðarlega gott varnarlið og þetta var 5. leikurinn af síðustu 6 sem liðið heldur hreinu í.

„Við héldum hreinu enn og aftur, þá þurfum við bara að skora eitt mark. Það er gaman að vera komin loksins í plústölu, núna erum við komin með 2 í plús þannig að við erum búin að skora 17 og fá á okkur 15 og það er vel gert í 13 leikjum.”

„Frábært að fá tvö núna með Hröbbó (Hrafnhildur Hauksdóttir), hún hefur ekki skorað á æfingu hingað til það er gaman að hún skori í leik.”

Dómarinn Arnar Þór Stefánsson dæmdi víti á Selfoss í seinni hálfleik sem Alfreð Elías var alls ekki sammála og einnig fannst honum línan í leiknum vera skrýtin.

„Dómarinn gerði sitt fyrsta en línan var dálítið sérstök fannst mér. Menn máttu gera allt í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik mátti ekki gera neitt. Ég skil ekki alveg þessa línu en hann gerir sitt besta og gangi honum vel.”

„Þetta var aldrei víti, það sáu það allir. En réttlætið sigrar alltaf að lokum, hún klikkar á vítinu sem átti ekkert að vera víti en svona er þetta bara.”

„Ég er bara ótrúlega ánægður að koma hingað á erfiðan völl, Keflavík er gott lið, vel skipulagt og í góðu formi en þetta var bara okkar dagur. Við erum komnir í 3. sæti, við ætlum að gera harða atlögu að 2. sætinu,” sagði Alfreð Elías að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira