Fótbolti

Segjast hafa borgað konunum meira en körlunum undanfarin ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe og félagar í bandaríska landsliðinu eru skiljanlega ósáttar með nýjasta útspil bandaríska sambandsins.
Megan Rapinoe og félagar í bandaríska landsliðinu eru skiljanlega ósáttar með nýjasta útspil bandaríska sambandsins. Getty/Catherine Ivill
Nýjasta útspil bandaríska knattspyrnusambandsins er að halda því fram að knattspyrnukonurnar hafi fengið miklu meiri pening en knattspyrnukarlarnir undanfarin tíu ár.

Carlos Cordeiro, forseti bandaríska knattspyrnusambandsins, hefur snúið vörn í sókn í launadeilunni við leikmenn bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Bandarísku stelpurnar urðu heimsmeistarar á dögunum en standa jafnframt í málaferlum við bandaríska knattspyrnusambandið til að fá jafnmikið borgað og karlarnir.

Nýjasta innleggið frá umræddum Carlos Cordeiro er að setja fram niðurstöður úr rannsókn bandaríska knattspyrnusambandsins á greiðslum til kvenna- og karlalandsliðs Bandaríkjanna.





Í þeim tölum kemur fram að sambandið hafi greitt leikmönnum kvennalandsliðsins milljónum dollara meira en leikmönnum karlalandsliðsins á undanförnum áratug.

Bandarísku knattspyrnukonurnar hafa verið með mikinn meðbyr í seglin í þessum launadeilum síðan að þær tryggðu sér heimsmeistaratitilinn. Karlarnir hefðu hins vegar fengið miklu meiri pening ef þeir hefðu náð sama árangri á þær.

Það var fjórði heimsmeistaratitill bandaríska kvennalandsliðsins en besti árangur karlaliðsins í nútíma fótbolta eru átta liða úrslit á HM 2002. Bandaríska karlalandsliðið komst ekki á síðasta HM sem fór fram í Rússlandi í fyrra.

Sama kvöld og bandarísku stelpurnar tryggðu sér sinn annan heimsmeistaratitil í röð þá tapaði bandaríska karlalandsliðið á móti Mexíkó í úrslitaleik Gullbikarsins, álfukeppni Norður- og Mið-Ameríku.

Samkvæmt upplýsingunum sem Carlos Cordeiro kynnti í gær þá hafa leikmenn bandaríska kvennalandsliðsins fengið borgaðar samanlagt 34,1 milljón Bandaríkjadala frá 2010 til 2018 en þar eru við að tala um bæði laun og bónusgreiðslur. Inn í þessu eru laun bandaríska landsliðskvenna í kvennadeildinni sem sambandið borgar.





Leikmenn karlalandsliðsins hafa „bara“ fengið 26,4 milljónir Bandaríkjadala í laun og bónusa á sama tíma.

Inn í þessum tölum eru þó ekki bónusgreiðslur frá Alþjóða knattspyrnusambandinu á sama tímabili. Bandaríska sambandið hefur fengið 41 milljón Bandaríkjadala fyrir árangur karlaliðsins frá FIFA en aðeins 39,7 milljónir Bandaríkjadala fyrir árangur kvennaliðsins sem hefur samt unnið tvo heimsmeistaratitla og komist þrisvar í úrslitaleik HM á þessum tíma.

Um leið segir Carlos Cordeiro að bandaríska knattspyrnusambandið geti ekki borið ábyrgð á mismunandi greiðslum FIFA eftir kynjum.

Molly Levinson, talsmaður bandarísku knattspyrnukvennanna, var fljót að senda frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að þeirra mati sé þetta sorgleg tilraun til að berjast á móti öllum stuðningnum sem knattspyrnukonurnar hafa fengið með sínu baráttumáli fyrir kynjajafnfrétti hjá bandaríska sambandinu. Svar hennar má sjá hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×