Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 1-5 | Valskonur endurheimtu toppsætið með auðveldum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valsstúlkur fagna marki í kvöld.
Valsstúlkur fagna marki í kvöld. vísir/daníel
Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik en í þeim síðari keyrðu gestirnir af Hlíðarenda yfir Stjörnukonur. Lokatölur 5-1 Val í vil og þær því komnar aftur á topp deildarinnar með betri markatölu en Breiðablik.

                                  

Lítið að frétta í fyrri hálfleik

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað en heimakonur lágu aftarlega á vellinum og var ljóst að planið var að reyna sækja hratt þegar liðið vann boltann. Það gekk ekki nægilega vel en besta færi þeirra í fyrri hálfleik kom eftir frábæran einleik Hildigunnar Ýr Benediktsdóttur á 20. mínútu leiksins.

 

Hin unga Hildigunnur fékk knöttinn þá vinstra megin við vítateig Vals, lék inn í teiginn og skyldi Elísu Viðarsdóttur og Guðný Árnadóttir eftir áður en hún átti frábært skot í vinsta hornið sem Sandra Sigurðardóttir varði meistaralega. Hefði skotið verið meðfram jörðinni hefði það eflaust steinlegið.

 

Sléttum tíu mínútum síðar kom svo fyrsta mark leiksins en það gerði markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir eftir góðan sprett Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. Sú síðarnefnda átti þá góða fyrirgjöf frá vinstri sem Elín Metta Jensen rétt missti af á nærstönginni en knötturinn féll þægilega fyrir Margréti Láru sem tók við honum áður en hún lagði hann í hornið. Hennar 200. mark í efstu deild hér á landi.

 

Óverjandi fyrir Birtu Guðlaugsdóttur í marki Stjörnunnar sem hafði átt frábæra markvörslu skömmu áður þegar Fanndís Friðriksdóttir átti gott skot sem stefndi neðst í markhornið.

Barist um boltann á Samsung í kvöld.vísir/daníel
Valur óstöðvandi í síðari hálfleik

Staðan því 1-0 fyrir Val þegar Atli Haukur Arnarsson flautaði til hálfleiks. Eftir aðeins tíu mínútur í síðari hálfleik gerði Margrét Lára í raun út um leikinn en hún refsaði Viktoríu Valdísi Guðrúnardóttur er hún steig á boltann í öftustu línu. Margrét náði honum og lagði hann undir Birtu í markinu.

 

Valskonur gerðu svo endanlega út um leikinn með tveimur mörkum með þriggja mínútna millibili en á 69. mínútu leiksins skoraði Elín Metta Jensen eftir góða sendingu Hlínar Eiríksdóttur. Hnitmiðað skot niðri í hægra markhornið. Skömmu síðar hrökk boltinn til Fanndísar Friðriksdóttur inn í vítateig og hún lætur ekki bjóða sér slík tækifæri oftar en einu sinni. Hún þrumaði knettinum í netið og staðan orðin 4-0 gestunum í vil.

 

Margrét Lára fullkomnaði svo þrennu sína þegar hún fylgdi eftir skalla Elínar Mettu sem Birta varði meistaralega af stuttu færi. Jasmín Erla Ingadóttir minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu þegar Guðný Árnadóttir braut á Hildigunni Ýr undir lok leiks.

 

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 5-1 Val í vil sem fer með því aftur á topp deildarinnar, með betri markatölu en Breiðablik sem situr í 2. sætinu.

Valsstúlkur fagna sigrinum í kvöld.VÍSIR/DANÍEL
Af hverju vann Valur?

Af því Valur er mikið betra knattspyrnulið en Stjarnan þessa dagana. Flóknara er það ekki. Stjarnan gafst í raun upp í stöðunn 0-2 og því fór sem fór.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Það væri hægt að telja upp allt Valsliðið hér en Margrét Lára stóð eðlilega hvað mest upp úr þar sem hún skoraði þrjú mörk í kvöld.

 

Hvað gekk illa?

Stjörnunni gekk allavega ekki nægilega vel að halda knettinum frá marki sínu. Þá var sóknarleikur þeirra ekki upp á marga fiska í kvöld en þær virtust ekki hafa mikla trú á því að þær gætu brotið sterka vörn Vals niður framan af leik.

 

Hvað gerist næst?

Bæði lið fara eflaust í nokkurra daga frí þar sem Verslunarmannahelgin er framundan. Eftir að henni lýkur fær Valur fallbyssufóður HK/Víkings í heimsókn á Hlíðarenda en það virðist fátt geta komið í veg fyrir það að fyrrnefnda liðið spili í Inkassi-deildinni að ári. Sá leikur er föstudaginn 9. ágúst klukkan 19.15.

Þann sama dag fer Stjarnan í Árbæinn og mætir Fylki, einnig klukkan 19.15

Margrét Lára fagnar í kvöld.vísir/daníel
Markadrottningin Margrét Lára: Myndi ekki geta þetta nema með frábærum stuðningi góðra liðsfélaga

„Bara frábært Valslið í dag, ég er virkilega stolt af stelpunum og mér fannst þetta einn best spilaði leikur okkar í sumar. Margar sendingar á milli leikmanna, mikil hreyfing, varnarlínar og varnarleikurinn frábær,“ sagði markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir að loknum 5-1 sigri Vals á Stjörnunni í kvöld.

 

 „Bara ánægð, það er svo mikil liðsheild og ég held að við séum þrjár í Valslsiðinu komnar yfir 10 mörk í sumar og svo er vörnin að gera vel. Mér finnst við vera að vinna þetta á varnarleiknum og þá kemur sóknarleikurinn með,“ sagði Margrét auðmjúk eftir að hafa verið spurð út í eigin frammistöðu.

 

Það var þó ekki hægt að sleppa henni það auðveldlega frá viðtalinu en þrenna Margrétar Láru þýðir að hún er komin með 202 mörk í efstu deild hér á landi.

 

„Ég er stolt og ánægð með þetta en ég myndi aldrei geta þetta með frábærum stuðningi góðra liðsfélaga. Maður skorar ekki mörk einn, þær hafa hjálpað mér í gegnum tíðina og matað mig vel. En drottningin Olga Færseth [markahæsti leikmaður efstu deildar kvenna með 269 mörk], ég held ég leyfi henni að halda þessu meti þar sem hún á það skilið,“ sagði Margrét um markaskorun sína í efstu deild.

 

Þá var Margrét spurð út í það af hverju hún hefði ekki tekið þátt á æfingu Vals í gær en Pétur Pétursson, þjálfari liðsins, vildi ekki gefa upp hver ástæðan væri.

„Pétur er stórkostlegur maður en ég held að fyrir einhverjum árum hefði ég ekki verið sátt. Ég hef samt lært það í gegnum tíðina að það er hollt og gott að hlusta á þjálfarann og það skilar sér oft.“

 

Að lokum var Margrét spurð út í komandi helgi, Verslunarmannahelgina sjálfa.

„Ég er svo heppin að vera fædd og uppalin í Vestmananeyjum svo ég fer bara heim, það veit enginn hvað gerist þar,“ sagði Margrét og glotti við tönn.

Pétur Pétursson.vísir/bára
Pétur Pétursson: Margrét Lára er miklu betri framherji en ég var

„Mér fannst þetta einn besti leikurinn okkar í sumar, frábær fótbolti og ég naut þess að horfa á okkur spila í kvöld gegn sterku liðu Stjörnunnar,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, sáttur eftir 5-1 sigur gegn Stjörnunni í Garðabænum í kvöld.

 

Aðspurður hvað hefði breyst hjá Valsliðinu milli tímabila þá var Pétur ekki tilbúinn að gefa það upp.

„Ég ætla ekki að segja þér það,“ svaraði hann kíminn.

 

Þá var Pétur spurður út í Margréti Láru og hvort hún væri mögulega betri framherji en hann sjálfur var á sínum tíma.

„Ég skoraði ekki nema 67 mörk á Íslandi þannig já hún er miklu betri framherji. Ég held líka að Margrét viðurkenni það ekki en hún fékk að æfa í gær,“ sagði Pétur sposkur á svip.

 

„Nei ekki neitt,“ sagði hann svo þegar hann var svo spurður hvort hann vildi segja eitthvað um af hverju Margrét hefði ekki fengið að æfa í gær.

 

Að lokum var Pétur spurður út í Verslunarmannahelgina em hann segist treysta leikmönnum sínum.

„Það er Verslunarmannafrí og ef þessar stelpur hafa áhuga á að halda baráttunni áfram þá hugsa þær vel um sig og ég treysti því.“

Kristján Guðmundssonar á hliðarlínunni í dag.vísir/daníel
Kristján Guðmundsson: Annað markið drepur okkur

„Óþarflega stórt tap, frammistaða okkar í leiknum verðskuldar ekki 5-1 tap. Vondur seinni hálfleikur og það hefur fylgt okkur svolítið í sumar að koma svona inn í síðari hálfleikana en við sköpum færi, eigum möguleika á að komast í 1-0 í leiknum og það er margt gott í leiknum sem gleymist um leið og fólk sér 5-1 tap. Annað markið drepur okkur svo, það var bara gjöf og mögulega fjórða markið líka,“ sagði Kristján, þjálfari Stjörnunnar, um sín fyrstu viðbrögð eftir tap kvöldsins.

 

Kristján kunni engar skýringar á því af hverju Stjarnan byrjar síðari hálfleik jafn illa og raun ber vitni.

„Við erum að reyna koma ólíkum skilaboðum til liðsins áður en við göngum út á völlinn en það er eitthvað sem við þurfum að grufla meira í og finna út úr.“

 

„Megum ekki láta þetta á okkur fá. Það er vont að fá á okkur svona mörg mörk, áttum það ekki skilið en gerðum mistök sem leiddu til þess að við fengum á okkur fimm mörk. Þurfum að hreinsa það upp og mæta tilbúnar í næsta leik sem er ansi mikilvægur,“ sagði Kristján að lokum en Stjarnan er sem stendur í harðri fallbaráttu eins og hartnær hálf Pepsi Max deild kvenna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira