Innlent

Undirbúningur framkvæmda við fyrirhugaða Hvalárvirkjun hófst í morgun

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Svæði við Hvalárósa.
Svæði við Hvalárósa. Mynd/Tómas Guðbjartsson
Undirbúningur framkvæmda við fyrirhugaða Hvalárvirkjun hófst í morgun. Byrjað var að ráðast í lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi sem upplýsingafulltrúi Vesturverks segir minniháttar. Lögreglan á Vestfjörðum var ekki vör við mótmæli á svæðinu í morgun.Í ljósi þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði til bráðabirgða kröfum landeiganda og umhverfisverndarsamtaka um stöðvun framkvæmda við fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði fyrir helgi, hófst undirbúningur framkvæmda í dag.Upplýsingafulltrúi Vesturverks, sem er leyfishafi framkvæmdanna, segir að fyrsta skref sé að ráðast í minniháttar lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi, en samkvæmt samningi við Vegagerðina hefur Vesturverk tekið við veghaldi á þeim vegi.„Þetta eru minniháttar lagfæringar á veginum sjálfum svona þar sem hann er helst erfiður yfirferðar eða þar sem eru krappar beygjur. Síðan munum við undirbúa plan fyrir vinnubúðir við Hvalá sem  munu rísa á næsta sumri. Því til viðbótar munum við leggja brú yfir Hvalá, svona færanlega brú. Við þurfum að steypa stöpla undir hana,“ sagði Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks.Í fréttum okkar um helgina sagðist umhverfisverndarsinni að til greina kæmi að mótmæla framkvæmdunum fyrir vestan. Fréttastofa náði tali af lögreglunni á Vestfjörðum í morgun sem sagðist ekki hafa orðið vör við mótmæli á svæðinu í morgun.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.