Erlent

Boris skipar nýja ríkisstjórn

Andri Eysteinsson skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Getty/Leon Neal
Nýr forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, tók opinberlega við embætti í dag. Boris sem bar sigur úr býtum í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins í gær hóf umsvifalaust að skipa samflokksmenn sína í hin ýmsu ráðuneyti bresku ríkisstjórnarinnar. BBC greinir frá.

Meirihluti ríkisstjórnar Theresu May, 17 í heildina, hefur sagt af sér eða verið sagt upp störfum. Dominic Raab sem gegndi stöðu Brexit-málaráðherra í stjórn May var skipaður utanríkisráðherra og Priti Patel sem gegnt hefur stöðu alþjóða þróunarmálaráðherra var gerð að innanríkisráðherra í stjórn Johnson.

Þá hefur fyrirrennari Patel í starfi innanríkisráðherra, Sajid Javid sem hafnaði í fjórða sæti í leiðtogakjöri flokksins verið skipaður fjármálaráðherra en hann hefur áður starfað innan þess málaflokks.

Ben Wallace tekur við varnarmálaráðuneytinu af Penny Mordaunt en brotthvarf hennar þótti óvænt en hún er mikill stuðningsmaður Brexit og vinsæl á meðal flokksmanna. Tveir aðrir yfirlýstir Brexitarar, alþjóðviðskiptaráðherrann Liam Fox og Viðskiptaráðherrann Greg Clark voru einnig látnir yfirgefa skrifstofur sínar. Mordaunt, Fox og Clark studdu öll Jeremy Hunt, fyrrverandi utanríkisráðherra, í leiðtogakjörinu. Hunt sem varð annar í kjörinu segist hafa verið boðin önnur staða innan ríkisstjórnarinnar en kveðst hafa hafnað boði Johnson.

Hunt sagði að eftir níu ár í ríkisstjórn sé komin tími til að draga sig úr sviðsljósinu og styðja forsætisráðherrann sem óbreyttur þingmaður.

Auk þeirra sem áður hafa verið talin upp hafa fleiri hætt eða verið sagt upp. Menntamálaráðherrann, Damian Hinds, Norður Írlands-málaráðherrann Karen Bradley, innflytjendamálaráðherrann Caroline Nokes, Menningarmálaráðherrann Jeremy Wright, samfélagsráðherrann James Brokenshire, samgöngumálaráðherrann Chris Grayling og Skotlandsmálaráðherrann David Mundell verður öllum skipt út.

Þá höfðu Fjármálaráðherrann Philip Hammond, Dómsmálaráðherrann David Gayke og ráðherrann David Lidington sagt af sér.

BBC hefur eftir þingmanninum Nigel Evans að aðgerðirnar í dag minni á stjórnmálalegt blóðbað. Ríkisstjórn May hafi verið stráfelld.


Tengdar fréttir

Thatcher með hamslaust hár

Boris Johnson verður forsætisráðherra Bretlands í dag. Vann stórsigur í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins. Líkurnar á samningslausri, og dýrri, útgöngu úr ESB aukast með kjöri Johnsons. Donald Trump fagnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×