Lífið

Óljóst hvort kötturinn Larry beri sama hug til Boris og talsmaðurinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Larry er þekktur fyrir að stela athygli frá ráðamönnum sem standa fyrir utan Downingstræti 10.
Larry er þekktur fyrir að stela athygli frá ráðamönnum sem standa fyrir utan Downingstræti 10. Getty/Chris J Ratcliffe
Nú þegar ljóst er hver verður næsti forsætisráðherra Bretlands og hvern hann hyggst velja í ríkisstjórn sína, er hið minnsta ein spurning sem enn brennur á vörum fjölmargra Breta. Sú spurning er hvernig húskettinum Larry muni líka við nýskipaða forsætisráðherrann Boris Johnson.

Larry hefur búið í forsætisráðherrabústaðnum við Downingstræti 10 frá árinu 2011 þegar David Cameron, þáverandi forsætisráðherra gegndi embætti.

Larry var villiköttur áður en hann dvaldi í dýraathvarfi og var einna helst þekktur fyrir veiðieðli sitt. Það nýttist honum vel þegar hann kom inn á heimilið, þá fjögurra ára gamall. Larry hlaut þá titilinn æðsti músaveiðari forsætisráðuneytisins og hefur gegnt því embætti allar götur síðan við góðan orðstír.

Svo mikilvægur hefur kötturinn reynst sumum kjósendum að David Cameron sá sig tilneyddan til að kveða niður sögusagnir þess efnis að þeim kumpánum kæmi illa saman og birta mynd því til sönnunar árið 2016.

Einnig töldu sumir það stórt skref í samskiptum Bandaríkjanna og Bretlands þegar Larry leyfði Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta að klappa sér í opinberri heimsókn forsetans.

Óopinber Twitter aðgangur Larry státar sig af um 300 þúsund fylgjendum en þar hefur ónafngreindur talsmaður högnans síður en svo verið spenntur fyrir komu Boris Johnson í forsætisráðuneytið. Engar fregnir hafa borist af því hvort Larry kjósi að taka undir þau sjónarmið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×