Erlent

Johnson valinn leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra

Kjartan Kjartansson skrifar
Boris Johnson verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Hér ávarpar hann flokkssystkini sín eftir að niðurstöður voru tilkynntar í dag.
Boris Johnson verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Hér ávarpar hann flokkssystkini sín eftir að niðurstöður voru tilkynntar í dag. Vísir/EPA
Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri London, var valinn leiðtogi Íhaldsflokksins. Tilkynnt var um kjörið nú fyrir stundu og fékk Johnson um tvöfalt fleiri atkvæði en mótherji hans Jeremy Hunt, fráfarandi utanríkisráðherra.

Alls voru 159.320 manns á kjörskrá og var kjörsókn 87,4%. Af þeim fékk Johnson 92.153 atkvæði gegn 46.656 atkvæðum Hunt.

Theresa May, fráfarandi forsætisráðherra, stýrði sínum síðasta ríkisstjórnarfundi í morgun. Hún víkur nú fyrir Johnson.

Eftir að tilkynnt var um úrslitin steig Johnson upp í pontu og ávarpaði samflokksmenn sína. Hann byrjaði á því að þakka Hunt fyrir að hafa verið „gífurlega sterkur“ andstæðingur. „Þú hefur verið uppspretta frábærra hugmynda, sem ég hyggst stela,“ sagði Johnson og uppskar hlátur úr salnum.

Þá þakkaði Johnson fyrirrennara sínum, Theresu May, fyrir „stórkostleg“ störf hennar í þágu Íhaldsflokksins og bresku þjóðarinnar. Það hefðu jafnframt verið forréttindi að gegna embætti í ríkisstjórn hennar og fylgjast með ástríðu hennar og staðfestu í starfi. Þá hét hann því að hefjast strax handa við að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu.

Þakkarræðu Johnson má hlusta á í heild í spilaranum hér að neðan.

Johnson var utanríkisráðherra í ríkisstjórn May en sagði af sér vegna andstöðu við útgöngusamning hennar við Evrópusambandið. Hann greiddi síðar atkvæði með samningum á þingi.

Hans bíður nú það verkefni að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu á farsælan hátt, verkefnið sem var May að falli sem ráðherra. Johnson hefur meðal annars sagst tilbúinn að draga Bretland úr sambandinu án samnings. Sú afstaða hans hefur orðið nokkrum núverandi ráðherrum flokksins tilefni til að lýsa því yfir að þeir ætli að segja af sér frekar en að starfa í ríkisstjórn hans, þar á meðal fjármála- og dómsmálaráðherrarnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×