Fótbolti

Patrick Kluivert snýr aftur til Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Kluivert afhendir Lionel Messi verðlaun á síðasta tímabili.
Patrick Kluivert afhendir Lionel Messi verðlaun á síðasta tímabili. Getty/Alex Caparros
Patrick Kluivert er mættur aftur til Katalóníu þar sem hann mun taka af sér mikilvægt starf hjá sínu gamla félagi Barcelona.

Patrick Kluivert verður yfirmaður knattspyrnuakademíu Barcelona og fær það verkefni að rífa upp La Masia sem hefur fengið á sig talsverða gagnrýni að undanförnu.

Patrick Kluivert er nú 43 ára gamall og var að missa starfið sitt sem aðstoðarlandsliðþjálfari Kamerún. Hann og þjálfarinn Clarence Seedorf voru reknir eftir Afríkukeppnina í sumar.

Patrick Kluivert lék í sex tímabil með Barcelona liðinu og skoraði 145 mörk í 308 leikjum með félaginu. Hann varð einu sinni spænskur meistari eða vorið 1999.

Kluivert sagði í viðtali við heimasíðu Barcelona að hann væri ánægður með að vera kominn aftur heim en síðasta tímabil hans á Nývangi var 2003-04.





„Ég hlakka til nýrra tíma þar sem áskorunin er að halda Barcelona meðal bestu liða heims,“ sagði Patrick Kluivert sem lék á sínum tíma 79 landsleiki og skoraði 40 landsliðsmörk fyrir Hollendinga.

„Ég ólst upp í akademíu Ajax sem er mjög svipuð La Masia. Ég tel að ég geti gert mikið fyrir framþróun ungra leikmanna Barcelona,“ sagði Kluivert.

Kluivert skrifaði undir tveggja ára samning. La Masia hefur ekki skilað mörgum leikmönnum á síðustu árum ólíkt því eftir aldarmótin þegar nær allir stjörnuleikmenn Barcelona voru aldir þar upp.

Knattspyrnuakademían sem var einu sinni að skila heimsklassa mönnum eins og Lionel Messi. Andrés Iniesta og Xavi skilar ekki einu sinni nothæfum leikmönnum fyrir aðalliðið í dag. Því þarf Patrick Kluivert nú að breyta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×