Erlent

Vopnaðir menn dulbúnir sem lögregla sluppu með 750 kíló af gulli

Eiður Þór Árnason skrifar
Pallbíl mannana sem notaður var í ráninu og síðar yfirgefinn í nálægu hverfi.
Pallbíl mannana sem notaður var í ráninu og síðar yfirgefinn í nálægu hverfi. Vísir/AP
Vopnaðir menn stálu 750 kílóum af gulli á Guarulhos flugvellinum í São Paulo í Brasilíu í gær. Gullið er talið vera að andvirði tæpra 3,7 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins.

Hinir grunuðu komu á flugvöllinn dulbúnir sem lögregluþjónar og voru tveir starfsmenn flugvallarins teknir í gíslingu að sögn lögreglu. Gullinu var ætlað að fara til borganna New York og Zurich.

Pallbíll mannanna var sömuleiðis dulbúinn sem lögreglubifreið á vegum brasilísku alríkislögreglunnar.

Einnig hafa borist fregnir af því að hinir grunuðu hafi rænt fjölskyldu hátt setts starfsmanns á flugvellinum á miðvikudag í þeim tilgangi að nálgast upplýsingar um gullsendinguna sem var á leið í gegnum flugvöllinn.

Myndefni úr öryggismyndavélum bendir til þess að um fjóra menn hafi verið að ræða og að minnst einn þeirra hafi verið með riffill.

Talsmaður Guarulhos flugvallarins sagði að enginn hafi slasast í atvikinu en tjáði sig annars ekki um gíslatökuna.


Tengdar fréttir

Stálu úr vösum ferðamanna við Gullfoss og Geysi

Erlent þjófapar hefur herjað á ferðamenn í uppsveitum Árnessýslu að undanförnu og stolið töluverðum fjármunum. Fólkið kom hingað sem ferðamenn en þau voru handtekin vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×