Innlent

Ók með ferðamenn um Suðurland án réttinda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bílstjórinn var á ferð um Suðurland með ferðamennina. Hér má sjá Skógafoss, einn vinsælasta ferðamannastað Suðurlands.
Bílstjórinn var á ferð um Suðurland með ferðamennina. Hér má sjá Skógafoss, einn vinsælasta ferðamannastað Suðurlands. Vísir/vilhelm
Lögregla á Suðurlandi stöðvaði í gær ökumann 50 sæta rútu, sem reyndist aka með útrunnin ökuréttindi. Ökumanninum var gert að stöðva akstur og bíða eftir öðrum ökumanni með tilskilin réttindi til að taka við. Lögregla greinir frá þessu í tilkynningu.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að ekki liggi fyrir hversu margir voru í rútunni en bílstjórinn var stöðvaður við almennt eftirlit lögreglu. Þá hafa ekki fengist upplýsingar um það hvort um hafi verið að ræða hóp erlendra ferðamanna og ekki heldur hvort ökumaðurinn hafi verið á vegum einhvers ferðaþjónustufyrirtækis.

Oddur segir að málum af þessu tagi, þar sem bílstjóra hópbíla séu stöðvaðir með útrunnin réttindi, sé sífellt að fjölga í umdæminu.

Þá voru 28 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu í gær. Kærur fyrir slík brot eru þannig orðnar 2356 það sem af er ári. Í tilkynningu lögreglu segir að þar með séu brotin orðin fleiri en allt árið í fyrra, og raunar allt frá stofnun embættisins.

Þá voru þrír einstaklingar í sama bílnum kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti, tveir voru kærðir fyrir að nota ekki ökuritaskífu í ökurita bifreiða sem þeir óku. Þá voru skráningarnúmer voru tekin af þremur ökutækjum sem ýmist voru án trygginga eða komin langt fram yfir frest á lögbundinni aðalskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×