Innlent

Vísa kröfu Eflingar til Sambands íslenskra sveitarfélaga

Sylvía Hall skrifar
Í tilkynningu frá Eflingu segir að mikill samhugur hafi verið hjá starfsfólki.
Í tilkynningu frá Eflingu segir að mikill samhugur hafi verið hjá starfsfólki. Vísir/Egill
Fundur bæjarráðs Kópavogs samþykkti í gær að vísa kröfu Eflingar um 105 þúsund króna eingreiðslu til félaga eflingar sem starfa hjá bæjarfélaginu til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Félagsmenn Eflingar afhentu í gær undirskriftalista til bæjarstjórna Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Hörð kjaradeila hefur verið milli verkalýðsfélaganna og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna jöfnunar á lífeyrisréttindum. Vegna tafa á samningsgerð við hið opinbera hafi verið samþykkt að starfsmenn myndu fá greiddar 105 þúsund krónur þann 1. ágúst. Að undanskilinni Reykjavíkurborg, telja verkalýðsfélögin að ekki hafi verið staðið við loforð um jöfnun lífeyrisréttinda félagsmanna sinna.

Í tilkynningu frá Eflingu segir að mikill samhugur hafi verið hjá starfsfólki. Þrátt fyrir sumarlokanir í skólum og leikskólum bæjarfélaganna hafi safnast töluvert af undirskriftum. Valgerður Árnadóttir, sviðsstjóri Félagssviðs Eflingar, segir viðbrögð bæjarráðs Kópavogs vera vonbrigði.

„Það eru vonbrigði að bæjarstjórn Kópavogsbæjar skuli ekki taka afstöðu með starfsfólki sínu þegar svo mikilvægt kjaramál er tekið fyrir, að þau skuli ekki gæta jöfnuðar meðal starfsfólks síns þar sem ljóst er að sumt starfsfólk mun hljóta þessa greiðslu en aðrir ekki,“ er haft eftir Valgerði í tilkynningu Eflingar.

Hún segir það óafsakanlegt að lægst launaða starfsfólki bæjarins séu sendar kaldar kveðjur í sumarfríinu sem bæjarstjórinn sé svo „heppinn að fá að njóta“. Hann hafi ekki verið viðstaddur fundinn.

„Hæst launaði bæjarstjóri landsins og þó víða væri leitað getur ekki unað þeim lægst launuðu kjarabót sem þau hafa sannarlega unnið sér inn fyrir.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×