Fótbolti

Fyrrum lærisveinn Heimis klúðraði vítaspyrnu og Alsír komið í undanúrslitin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/getty
Alsír er komið í undanúrslitin í Afríkukeppninni eftir að hafa sigrað Fílabeinsströndina í vítaspyrnukeppni í átta liða úrslitunum í kvöld.

Sofiane Feghouli, fyrrum leikmaður West Ham og núverandi leikmaður Galatasaray, skoraði fyrsta markið á sjöundu mínútu er hann kom Alsír yfir.

Alsír fékk svo frábært tækifæri til að tvöfalda forystuna á 48. mínútu er Baghdad Bounedjah fór á vítapunktinn. Honum brást hins vegar bogalistinn og leikurinn galopinn.

Á 62. mínútu var það svo samherji Birkis Bjarnasonar hjá Aston Villa sem jafnaði metin fyrir Fílabeinsströndina en Jonathan Kodjia skoraði markið.

Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og þegar framlengingunni var lokið höfðu liðin ekki skorað annað mark. Því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Wilfried Bony, sem var á láni hjá Heimi Hallgrímssyni í Katar á síðustu leiktíð, og Geoffroy Serey Die klúðruðu vítaspyrnum fyrir Fílabeinsströndina en Alsír klúðraði einungis einni.

Alsír er því komið í undanúrslitin en í undanúrslitunum mæta þeir Nígeríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×