Erlent

Samkomulag við Íran er hvergi nærri í sjónmáli

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Talið er að um ár sé í að Íran geti komið sér upp kjarnorkuvopnabúri.
Talið er að um ár sé í að Íran geti komið sér upp kjarnorkuvopnabúri. Nordicphotos/AFP
Bretum, Frökkum og Þjóðverjum gengur erfiðlega að komast að samkomulagi við stjórnvöld í Íran um að halda áfram að framfylgja JCPOA-kjarnorkusamningnum sem ríkin fjögur, auk Bandaríkjanna, Kína, Rússlands og Evrópusambandsins, gerðu árið 2015.

Evrópuríkin hafa að undanförnu reynt að lægja öldurnar en togstreitan á milli Bandaríkjanna og Íran hefur aukist stöðugt frá því Bandaríkin riftu samningnum af sinni hálfu. Samningurinn gekk út á afléttingu þvingana á Íran gegn því að ríkið frysti kjarnorkuáætlun sína. Bandaríkin hafa, eftir riftun, lagt á nýjar þvinganir á meðan Íran hefur nú í tvígang dregið úr þátttöku sinni í samningnum og eru stjórnvöld farin að safna auðguðu úrani.

Bíða eftir svörum

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sendi erindreka sinn til Teheran, höfuðborgar Íran, í síðustu viku til þess að ræða stöðuna að því er Reuters greinir frá.

„Við sögðum Hassan Rouhani forseta frá okkar afstöðu og bíðum nú svara frá Írönum. En það er nokkuð langt á milli af því Íran krefst þess að þvingunum verði aflétt tafarlaust,“ var haft eftir upplýsingafulltrúa Frakklandsforseta.



Skotið fast á Evrópuríkin

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, var gagnrýninn á sunnudag. „Það er mikill munur á því að gera eitthvað og tilkynna um að maður vilji gera eitthvað,“ sagði hann og skaut þannig á Evrópuríki.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Breta, sem sækist nú eftir forsætisráðuneytinu, var öllu bjartsýnni er hann mætti á fund utanríkisráðherra ESB í Brussel í gær. „Staðan er að þrengjast en það er enn mögulegt að halda lífi í samningnum.“ 


Tengdar fréttir

Íransforseti boðar frekari auðgun úrans

Stjórnvöld í Teheran reyna nú að þrýsta á Evrópuríki sem eiga aðild að kjarnorkusamningum um að þau verja Íran fyrir viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×