Innlent

Veist að þremur múslimskum konum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan segir að veist hafi verið að þremur múslimskum konum.
Lögreglan segir að veist hafi verið að þremur múslimskum konum. Vísir/Vilhelm
Lögreglan rannsakar nú hugsanlegan hatursglæp, sem tilkynnt var um í Breiðholti á sjöunda tímanum í gærkvöld. Í dagbókarfærslu lögreglunnar segir að þar hafi verið veist að þremur múslimskum konum sem staddar voru utandyra. Ekki fylgir þó sögunni hver veittist að konunum eða hvernig, aðeins að málið sé til rannsóknar.

Lögreglan segir að sama skapi að brugðist hafi verið við 50 tilkynningum frá klukkan 17 í gær til 05 í morgun. Til að mynda hafi verið höfð afskipti af „betlara“ sem sagður er hafa brugðist „illa við ef hann var hunsaður.“ Gangandi vegfarendur hafi kvartað undan áreiti og ógnun og hafi lögreglan því vísað manninum burt.

Jafnframt var eitthvað um skemmdarverk í gærkvöldi. Tilkynnt var um rúðubrot í Árbæjarskóla á sjöunda tímanum og þá var kveikt í ruslagámi við Rimaskóla skömmu fyrir klukkan 23. Kallað var á slökkvilið sem réði niðurlögum eldsins.

Þá segir lögreglan að nokkrar tilkynningar hafi borist vegna ölvaðs fólks í miðbænum. „Fólkið var ýmist vakið, vísað frá eða ekið heim til sín,“ eins og það er orðað í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×