Innlent

Kölluðu til lögreglu vegna grænkera sem spiluðu dýrahljóð í matvöruverslun

Kjartan Kjartansson skrifar
Grænkerar mótmæla kjötáti í Hagkaupum í gærkvöldi.
Grænkerar mótmæla kjötáti í Hagkaupum í gærkvöldi. Skjáskot

Starfsfólk í matvöruverslun í Reykjavík óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna mótmæla grænkera gegn dýraáti. Erlendir aðgerðasinnar gegn kjötáti segjast hafa spilað þjáningahljóð úr dýrum í kjöt- og mjólkurvörudeildum stórmarkaða í Reykjavík í gær.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hópur fólks, líklega mótmælenda, hafi verið með læti og gefið frá sér ýmis dýrahljóð í matvöruverslun í hverfi 108. Lögreglumenn hafi ekki haft afskipti af fólkinu þar sem það hafi yfirgefið verslunina fljótlega.

Fréttablaðið sagði frá því í gærkvöldi að erlendu aðgerðasinnarnir Natasha Katherine Cuculovski og Luca Padalini hafi staðið fyrir friðsamlegum mótmælum í Hagkaupum í Skeifunni í gærkvöldi. Þau kalla sig „Þetta grænkerapar“ [e. That vegan couple] á samfélagsmiðlum.

Í færslu á Facebook-síðu parsins segjast þau hafa staðið fyrir fyrstu mótmælum sínum á Íslandi í gær og birta myndband sem virðist tekið í og við Hagkaup í Skeifunni. Þau hafi spilað dýrahljóð í kjöt- og mjólkurvörudeildinni.

Í myndbandinu má sjá hóp fólks með mótmælaspjöld og límt fyrir munninn inni í versluninni. Karlmaður, sem virðist vera Padalini, heldur þar á litlum hátalara og leikur hljóð sem virðast vera úr ýmis konar húsdýrum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.