Umfjöllun og viðtöl: KR - HK/Víkingur 4-2 | KR-ingar upp í 5. sætið eftir annan sigurinn í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Katrín Ómarsdóttir skoraði fjórða og síðasta mark KR.
Katrín Ómarsdóttir skoraði fjórða og síðasta mark KR. vísir/daníel þór
KR vann góðan 4-2 sigur á HK/Víking í fallbaráttunni í Pepsi Max deild kvenna í Frostaskjóli í kvöld. Gestirnir komust yfir undir lok fyrri hálfleiks en KR svaraði með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik. HK/Víkingur náðu að jafna metin um miðbik hálfleiksins en KR svaraði með tveimur mörkum og tryggði sér þar með sigurinn.

Aðdragandi leiksins var mjög skrýtinn en Rakel Logadóttir stýrði HK/Víking í kvöld þar sem Þórhallur Víkingsson var rekinn í gær. Rakel hafði verið aðstoðarþjálfari liðsins það sem af er tímabili. Svipaðar aðstæður eru hjá KR-ingur en Ragna Lóa Stefánsdóttir var aðalþjálfari annan leikinn í röð eftir að Bojana Besic sagði af sér. KR-ingar vilja eflaust halda Rögnu Lóu sem hefur nú unnið báða leiki sína sem aðalþjálfari.

Eftir mjög jafnan fyrri hálfleik þar sem bæði lið voru að þreifa fyrir sér í bleytunni í Vesturbænum þá voru það gestirnir sem komust yfir með frábæru marki Evu Rutar Ásþórsdóttur úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Hennar fyrsta mark í efstu deild.

Varnarmenn KR geta nagað sig í handarbökin þar sem klaufagangur þeirra leiddi til þess að HK/Víkingur fékk aukaspyrnuna sem markið kom úr. Þar á undan hafði fátt markvert gerst en bæði lið höfðu átt fyrirgjöf sem endaði í tréverkinu. Staðan 0-1 í hálfleik.

Heimakonur byrjuðu mun betur í síðari hálfleik og hafði Betsy Doon Hassett jafnað metin þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af honum. Hún tók þá viðstöðulaust skot með vinstri fæti rétt fyrir utan D-bogann eftir slaka hreinsun varnarmanna HK/Víkings og söng tuðran í netinu. Staðan orðin 1-1.

Eftir það sóttu KR-ingar stíft og uppskáru annað mark eftir hornspyrnu sem virtist vera að fara í vaskinn. Ásdís Karen Halldórsdóttir tók spyrnuna stutt og endaði knötturinn hjá Lilju Dögg Valþórsdóttur sem var nánast við miðlínu, hún lyfti knettinum inn á teig þar sem Ingunn Haraldsdóttir reis hæst og skallaði knöttinn niður í fjærhornið.

Audrey Rose Baldwin í marki HK/Víkings vill eflaust ekki sjá markið aftur en boltinn virtist fara undir hana. Mjög svekkjandi en hún hafði átt fínan leik fram að þessu.

Þegar 20 mínútur voru til leiksloka og KR í raun búið að sækja nánast linnulaust þá jöfnuðu gestirnir metin. HK/Víkingur sótti þá hratt upp hægri vænginn og átti Karólína Jack góða sendingu með jörðinni á Evu Rut sem kláraði í fyrsta niðri í hornið vinstra megin. Óverjandi fyrir Ingibjörgu Valgeirsdóttur í marki KR.

Adam var þó ekki lengi í paradís en aðeins þremur mínútum síðar komust heimakonur aftur yfir. Að þessu sinni var það Gloria Douglas sem skoraði eftir frábæra fyrirgjöf Betsy Hassett af hægri kantinum. Gloria nánast rennitæklaði knöttinn í netið en varnarleikur gestanna var vægast sagt slakur í þessu marki.

Katrín Ómarsdóttir gerði svo út um leikinn þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en hún gat í raun ekki annað en skorað eftir að Gloria Douglas negldi boltanum fyrir markið þar sem Katrín var ein á auðum sjó. Lagði hún knöttinn snyrtilega í netið og staðan því orðin 4-2 KR í vil. Reyndust það lokatölur leiksins.

Sigurinn kemur KR upp í 5. sæti deildarinnar á meðan HK/Víkingur situr sem fastast á botninum.

Af hverju vann KR?

Þær voru einfaldlega sterkari aðilinn á flestum sviðum fótboltans í kvöld. Þá sérstaklega í síðari hálfleik en sóknarleikurinn þeirra var mjög öflugur í erfiðum aðstæðum. Að sama skapi voru HK/Víkingar klaufar varnarlega og það virtist einfaldlega sem þær hafi klárað bensínið í fyrri hálfleik.

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá KR var Betsy Doon Hassett eins og valkyrja á miðjunni en hún réð lögum og lofum þar – sérstaklega í síðari hálfleik. Skoraði hún stórglæsilegt mark ásamt því að leggja upp annað. Frábær leikur hjá þessum Ný-Sjálenska leikmanni. Þá átti Gloria Douglas frábæran leik en hún skoraði einnig eitt og lagði upp annað. Að lokum var Ásdís Karen Halldórsdóttir síógnandi en hún var því miður ekki í markaskónum í dag.

Hjá gestunum var það hin unga Eva Rut Ásþórsdóttir sem stóð upp úr en hún skoraði sín fyrstu tvö mörk í deildinni í dag. Þá átti Audrey Rose Baldwin mjög fínan leik í markinu fram að öðru marki KR en hún hefði átt að gera betur þar. Eftir það fór að halla undan fæti.

Hvað gekk illa?

Bæði lið voru í vandræðum með völlinn – sérstaklega í fyrri hálfleik. Sendingar voru hægar og gekk boltinn hægt á milli leikmanna. Þá voru varnar beggja liða í vandræðum með að lesa boltann. Varnarleikur HK/Víkings gekk sérstaklega illa í síðari hálfleik en þær virtust ekki vita í hvorn fótinn átti að stíga í allavega tveimur af mörkum KR.

Hvað gerist næst?

KR mætir Þór/KA í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á laugardaginn kemur. HK/Víkingur fær Keflavík í heimsókn á föstudaginn í leik sem þær verða að vinna.

Ragna Lóa og Gísli Þór Einarsson, aðstoðarmaður hennar.vísir/daníel þór
Ragna Lóa: Ætlum í bikarúrslit

„Þetta var geggjaður leikur og gaman í seinni hálfleik að skora fjögur mörk, við höfum verið að ströggla við markaskorun svo þetta var geggjað,“ sagði Ragna Lóa Stefánsdóttir, þjálfari KR, eftir leikinn í kvöld.

Varðandi markið sem KR fékk á sig undir lok fyrri hálfleiks þá var stutt í grínið hjá Rögnu Lóu.

„Ég sagði við þær að ég myndi hætta sem þjálfari ef þær myndu ekki skora nokkur mörk í seinni hálfleik og þær vilja greinilega halda mér,“ sagði Ragna kímin að leik loknum en KR skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik og hefði hæglega geta skorað fleiri í Frostaskjólinu í kvöld.

KR er í 5. sæti deildarinnar og komið í undanúrslit bikarsins. Markmið liðsins eru skýr að mati núverandi þjálfara.

„Við ætlum að taka Þór/KA á laugardaginn og þar með alla leið í bikarúrslit. Svo ætlum við að enda þægilega um miðja deild. Þetta er það sem við KR-ingar stefnum að í dag,“ sagði Ragna Lóa að lokum.

Rakel og Lára Hafliðadóttir stýra HK/Víkingi út tímabilið.mynd/hk
Rakel: Búið að gerast hratt og ekki mikill tími til stefnu

„Svekkelsi, leikmenn unnu vel í þessum leik en náðu ekki að uppskera eins og þær sáðu fannst mér. Við slitnuðum í seinni hálfleik en fyrri hálfleikurinn var góður af okkar hálfu fannst mér þannig að seinni hálfleikur var smá svekkelsi,“ sagði Rakel Logadóttir, aðalþjálfari HK/Víkings í kvöld, um leikinn.

„Í gær, um miðjan dag,“ sagði Rakel aðspurð út í hvenær hún vissi að hún yrði aðalþjálfari liðsins hér í kvöld. Í kjölfarið tók við mikið stress sagði Rakel sem var ekki að búast við þessu.

„Þetta er búið að gerast hratt og ekki mikill tími til stefnu. En ég tók við góðu búi af Þórhalli og hélt áfram með það upplegg sem var búið að gera.“

Varðandi framhaldið þá var Rakel nokkuð brött enda deildin með eindæmum jöfn.

„Ég stefni að því að vinna með þennan hóp, hausinn og þá hluti sem þarf að bæta þó ég ætli ekkert að tíunda um það hér en það er fullt af hlutum sem við þurfum að bæta,“ sagði Rakel að lokum.

Betsy skoraði og lagði upp í kvöld.vísir/vilhelm
Betsy: Vissum að við myndum vinna leikinn

„Frábær leikur, sérstaklega eftir að við lentum 1-0 undir. Við spiluðum mjög vel í síðari hálfleik og ég er mjög stolt af stelpunum. Við þurftum á þessum stigum að halda svo við erum allar mjög glaðar,“ sagði Betsy Hassett að leik loknum en hún fór mikinn á miðju KR í kvöld. Skoraði eitt og lagði upp annað.

„Við áttum gott spjall í hálfleik, við vissum að við myndum vinna leikinn svo við snérum bökum saman og fórum yfir nokkra hluti. Til dæmsi að fara hærra með bakverðina og gefa fyrir markið með jörðinni sem leiddi til þess að við skoruðum þrjú, nei ég meina fjögur mörk í síðari hálfleik,“ sagði Betsy aðspurð út í hvernig liðið hefði brugðist við því að lenda undir í kvöld en miðjumaðurinn knái var ekki alveg með á hreinu hversu mörg mörk KR liðið skoraði í kvöld og þurfti að staðfesta það við blaðamann.

Að lokum sagðist Betsy nokkuð sátt með að hafa skorað í kvöld en hún telur sig eiga meira inni hvað markaskorun varðar.

„Ég þarf bara að komast hærra upp völlinn og koma mér í færi,“ sagði hún að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira