Fótbolti

Rúnar: Getum gengið stoltir af velli

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Rúnar kvaðst stoltur af sínum mönnum.
Rúnar kvaðst stoltur af sínum mönnum. vísir/bára

KR gerði í kvöld markalaust jafntefli við topplið norsku úrvalsdeildarinnar, Molde. Þetta var seinni leikur liðanna í fyrstu umferð af undankeppni Evrópukeppni félagsliða en fyrri leikurinn sem var í Noregi tapaðist 7-1. Það var því ljóst að Molde voru nánast öruggir áfram svo leikurinn var kannski full rólegur.

„Þetta var fínn leikur af okkar hálfu varnarlega. Góður lærdómur. Það var ágætt fyrir bæði lið að hafa ekki slasað neina leikmenn. Það voru engin meiðsli. Það voru ágætis spilkaflar hjá báðum liðum inná milli og við fengum okkar sénsa,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir leik kvöldsins.

Það voru samtals átta breytingar á byrjunarliðum liðanna frá seinasta leik og ljóst að lykilmenn fengu að hvíla sig aðeins. KR voru með nokkra leikmenn í sínu byrjunarliði sem hafa ekki ennþá verið í byrjunarliðinu í deildinni í sumar.

„Við spiluðum sama leikkerfi og þeir líka. Þetta var aðeins hægari leikur en sá sem var á gervigrasinu hjá þeim. Þó svo að það sé blautt gras, þá er minna tempó í þessu. Úrslitin í fyrri leiknum hafa auðvitað líka áhrif á þennan leik. Hvorugt liðið vill taka of mikla sénsa að meiða leikmenn og bæði lið voru að hvíla leikmenn.“

Varnarleikur KR var góður í kvöld. Þrátt fyrir að sóknin hjá Molde hafi kannski ekki verið uppá marga fiska þá náðu KR alltaf að loka á þá þegar þeir sköpuðu einhverja hættu. Sóknarleikurinn var ágætur á köflum en KR fengu nokkur mjög fín færi til að komast yfir.

„Ég er ánægður að við höfum haldið hreinu gegn þessu frábæra Molde liði sem sýnir að við lærðum af fyrri leiknum allavega. Við fengum ekki á okkur mark og þeir eru ekki að skora úr þessum föstu leikatriðum sínum sem er mikilvægt fyrir okkur.“

Björgvin Stefánsson tók nokkur flott skot fyrir KR í leik kvöldsins. Það virtist þó eins og Alexandro Craninx markmaður Molde hafi alltaf verið skrefi á undan honum og varði hann alltaf meistaralega hér á Meistaravöllum.

„Markmaðurinn gerði vel. Fyrsta snertingin í seinasta færinu hans Bjögga eyðileggur síðan aðeins fyrir honum. Það hefði verið gaman ef við hefðum stolið þessu og fengið sigurinn heima. En jafntefli er gott og við töpuðum ekki.“

Eftir þetta stóra tap hefur eflaust verið mikilvægt fyrir KR að bjarga andliti hér í kvöld. Þeir skiluðu fínu dagsverki þrátt fyrir að hafa ekki skorað í leiknum.

„Við getum gengið stoltir frá velli þó svo að við höfum verið örlítið særðir í síðustu viku. Við sjáum að þegar menn eru samstilltir og menn eru að verjast eins og við viljum að þeir verjist þá er allt hægt.“

Nú fer einbeitingin hjá KR aftur yfir á Pepsi Max deildina en þeir fá Stjörnuna í heimsókn á sunnudaginn. Stjarnan komst í kvöld áfram í Evrópukeppninni og mun þess vegna líka að vera að keppa næstkomandi fimmtudag. Rúnar telur það þó ekki hjálpa KR neitt.

„Stjörnuliðið er gott. Þeir eru búnir að vera það í mörg ár og eru búnir að vera með sama þjálfarann í mörg. Þeir vita nákvæmlega hvernig þeir ætla að spila fótbolta og þeir hafa staðið sig vel á móti okkur og verið okkur erfiðir. Ég býst ekki við neinu öðru en erfiðum leik á sunnudaginn.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.