Innlent

Furðar sig á ummælunum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það er fjarri mér að fara að standa í einhverjum frekari rökræðum um þetta mál, það liggur bara svona, einfalt og skýrt fyrir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við Fréttablaðið, þegar hann var spurður út í ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, í garð forsætisnefndar. Þórhildur Sunna kallaði forsætisnefndina „gjörspillta á samtryggingu karlaklíkunnar“ í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á sunnudag.

Forsætisnefnd féllst í síðasta mánuði á niðurstöðu siðanefndar þess efnis að Þórhildur Sunna hefði brotið siðareglur með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. „Ég kalla þá forsætisnefnd gjörspillta á samtryggingu karlaklíkunnar sem neitar að taka afstöðu til nokkurs nema framkomu ungrar konu í stjórnarandstöðu sem móðgaði miðaldra karl,“ sagði Þórhildur Sunna.

Steingrímur hafnar því alfarið að forsætisnefnd sé spillt. „Einhver ummæli um spillta forsætisnefnd eiga náttúrulega í sjálfu sér ekki við, það ætti að beina þeim spjótum að siðanefndinni en að sjálfsögðu ekki forsætisnefndinni. Það er niðurstaða siðanefndar sem er látin standa,“ segir Steingrímur og bendir á að allir málsaðilar hafi óskað eftir því að málinu yrði skotið til siðanefndar sem var og gert. Málið hafi því legið einfalt fyrir forsætisnefnd sem hafi gert þá niðurstöðu að sinni.


Tengdar fréttir

Segir forsætisnefnd gjörspillta

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir forsætisnefnd gjörspillta og hafnar áliti siðanefndar Alþingis. Forsætisnefnd féllst á álit siðanefndar um að hún hefði brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.